„Bjartsýnn að við náum fleirum inn“

Mynd: RÚV / RÚV

„Bjartsýnn að við náum fleirum inn“

03.04.2020 - 19:30
Frestun Ólympíuleikanna um eitt ár hefur skapað ýmis ný viðfangsefni hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands. Ekki öll neikvæð þó því hópur þeirra sem eiga möguleika á að komast á leikana hefur stækkað.

Ólympíuleikar eru langstærsta verkefni hverra fjögurra ára hjá ÍSÍ. Með frestun leikanna í Tókýó um eitt ár eykst óvissan hjá ÍSÍ um hvernig framhaldið verði fyrir sumarið 2021.

 

„Það er svona verið að reyna að finna lausnir sem eru kannski það besta í stöðunni. Það er verið að lengja styrkjatímabilið sem er að koma fyrir Alþjóðaólympíunefndinni gagnvart þeim sem eru að undirbúa sig. En síðan er þessi óvissa sem við vitum ekki hvernig verður varðandi lágmörk, varðandi lágmarkstíma. Það er búið að gefa út að það eigi að komast á hreint núna í apríl og maí hvernig það verður þannig að við bíðum spennt.“ segir Andri Stefánsson, sviðsstjóri afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ.

 

Aðeins einn Íslendingur var kominn með lágmark á leikana í Tókýó, Anton Sveinn McKee í sundi. Nú fæst hins vegar ár til viðbótar fyrir íþróttafólk til að vinna sér keppnisrétt, yngra fólk sem tekur stórstígum framförum. Andri er því bjartsýnn á framhaldið fyrir sumarið 2021.

 

„Það er kannski líka eins og með lágmörkin, það er kannski aðallega eins og í frjálsum og svoleiðis greinum þar sem allir geta náð þessu inn ef þeir ná bara einu góðu kasti jafnvel á rétta mótinu. Við erum með mjög breyttar reglur og ég hef áhyggjur af því að það geti gert þetta erfiðara en það var áður fyrr. Íslandsmótið í frjálsum íþróttum átti til að mynda að vera eitt af síðustu mótunum þar sem þú gast náð lágmarki inn fyrir leikana í sumar. Hversu mikið gildir það svo á næsta ári, hvernig verður mótaröðunin þar? En ég hef fulla trú á okkar fólki og er mjög bjartsýnn að við náum fleirum inn fyrir vikið, kerfið þarf þó líka að vera okkur hliðhollt og við þurfum að vera heppin hvað það varðar.“ segir Andri.

Ummæli Andra má sjá í spilaranum að ofan.