Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Aukið fiskeldi verðmætara en heil loðnuvertíð

03.04.2020 - 07:15
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Aukið fiskeldi sem gæti hlotist af breyttu áhættumati Hafró skilar meira útflutningsverðmæti en heil loðnuvertíð. Framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis í Reyðarfirði segir að gangi tvöföldun á laxeldi á Austfjörðum í gegn muni störfum við fiskeldi fjölga og líklega verði farið í mikla fjárfestingu í eldisvinnslu á Djúpavogi.

Hafrannsóknastofnun lagði í síðasta mánuði til að áhættumati í laxeldi yrði breytt en það myndi heimila aukið eldi bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum, samtals um 35.500 tonn. Yrði það aukið um þetta magn myndi útflutningsverðmæti eldisfisks aukast um hátt í 27 milljarða. Þá er miðað við að um 750 krónur fáist fyrir kílóið. Loðnuvertíðin 2018 gaf næstum 17,8 milljarða í útflutningstekjur. 

Á Austfjörðum yrði hægt að tvöfalda hámarkseldi; úr 21 í 42 þúsund tonn.  Eldi yrði leyft í Seyðisfirði en mestu munar um aukningu í Fáskrúðsfirði og á Reyðarfirði þar sem Laxar fiskeldi eru með sjókvíar.

Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa á Reyðarfirði, segir að verði nýja áhættumatið samþykkt, þurfi fyrirtækin að sækja um leyfi fyrir auknu eldi. Framleiðsluaukning gæti farið að skila sér eftir tvö til þrjú ár. 

„Félögin munu fjölga umtalsvert starfsmönnum. Þetta mun styrkja vinnsluna á Djúpavogi hjá Búlandstindi og samfélagið þar. Þetta þýðir að það þarf að fara í umtalsverðar fjárfestingar í Búlandstindi til þess að standa undir þessu aukna magni. Þegar menn eru komnir í 40 þúsund tonna framleiðslu á Austurlandi þá getur þetta til dæmis opnað á flugfrakt frá Egilsstöðum. Það verður að ráðast af markaðnum hverju sinni en það gæti gert það,“ segir Jens Garðar Helgason.