Sögulega nýtt að eyða ævinni með einni manneskju

Mynd: Pinterest / Pinterest

Sögulega nýtt að eyða ævinni með einni manneskju

02.04.2020 - 16:11
Indíana Rós, kynfræðingur, ræddi opin sambönd í Núllstillingunni á MenntaRÚV í dag. Þar talaði hún meðal annars um mikilvægi samskipta í slíkum samböndum og að einkvæni sé í sögulegu samhengi frekar nýtt af nálinni.

Indíana Rós leyfði Atla og Snærós að draga málefni til að tala um í kynfræðsluhorninu í Núllstillingunni í dag. Það sem kom upp úr hattinum voru opin sambönd. 

Indíana segir að maður geti hugsað um opin sambönd eins og maður hugsar um vini sína. „Maður á eina vinkonu sem maður fer með á djammið og aðra sem maður fer á trúnó með. Það er í rauninni ótrúlega mikil pressa að setja þetta allt á einn maka eða eina manneskju,“ segir Indíana og bætir því við að í sögulegu samhengi sé það að vera bara með einni manneskju frekar ný pæling. Fólk giftist hvort öðru af því foreldrar þeirra vildu stækka jörðina og efnahag fjölskyldunnar en svo áttu viðkomandi hjón kannski kærustur og kærasta til hliðar. 

Opin sambönd eru tiltölulega algeng víða í heiminum en Indíana segir að fólk sé vissulega feimnara við þetta hér á Íslandi í litlu samfélagi. „Fólk er fljótt að frétta allt og maður nennir kannski ekki slúðrinu sem því fylgir,“ bætir hún við. 

Ef þetta er eitthvað sem manni langar þá eru samskipti algjört lykilatriði, þú getur búið þig undir að finna fyrir einhverri afbrýðissemi en það verður þá að tala um það sem Indíana segir að sé eitthvað sem lærist fljótlega með tímanum. Maður þurfi líka að kynna sér hlutina vel og láta maka sinn kynna sér málið líka.

„Þetta er hins vegar ekkert sem bjargar neinu sambandi ef þið eruð ekki hamingjusöm. Fyrir fram þarf að vera mikið traust og raun hamingja til staðar í sambandinu,“ segir hún að lokum. 

Umræðuna í Núllstillingunni um opin sambönd má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Núllstillingin er á dagskrá alla virka daga frá klukkan 2 til 4. 

Tengdar fréttir

Gott að spara sér kynlíf með ókunnugum þessa dagana