Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lögreglan rannsakar andlát konu sem lést eftir útskrift

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar mál 42 ára konu sem lést hálfum sólarhring eftir að hafa verið útskrifuð af bráðamóttöku Landspítalans fyrir viku. Þetta staðfestir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn. Landspítalinn tilkynnti málið til Landlæknis í gær.

Konan var flutt með sjúkrabíl á bráðamóttökuna á fimmtudaginn í síðustu viku, en talið var að hún hefði fengið blóðsýkingu. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafði konan sögu um svipuð veikindi. Hún hafði tvisvar áður, á síðustu tveimur árum, leitað á bráðamóttökuna vegna sömu einkenna, en þá hafði verið um blóðsýkingu að ræða. Hún var í bæði skiptin lögð inn og fékk meðferð við sýkingunni.

Þegar konan kom á bráðamóttökuna á fimmtudaginn var hún illa áttuð, máttvana og átti erfitt með bæði gang og tal. Vegna Covid-19 fékk aðstandandi ekki að koma með henni inn á spítalann. Rúmum þremur tímum síðar var hún útskrifuð og send heim í hjólastól. Hún lést morguninn eftir.

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV