Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lambakjöt frá Fjallalambi á markað í Kína

Mynd með færslu
 Mynd: Fjallalamb
Tuttugu tonna prufusending af lambakjöti fór nýlega frá Fjallalambi á Kópaskeri á markað í Kína. Framkvæmdastjóri Fjallalambs segir viðtökurnar góðar og Kínverjar séu áhugasamir um frekari viðskipti.

Í kjölfar breytinga á fríverslunarsamningi Íslands og Kína haustið 2018 hófst hjá Fjallalambi vinna við að koma lambakjöti á markað þar. Kínverjar vilja aðeins kjöt af riðulausum svæðum og er Fjallamb eina íslenska afurðastöðin sem uppfyllir það skilyrði. Og nú nærri tveimur árum síðar er fyrsti farmurinn farinn til Kína.

Kjötið fer til fínna veitingahúsa í Kína

„Þetta var í kringum 20 tonn,“ segir Björn Víkingur Björnsson, framkvæmdastjóri Fjallalambs. Og það hafi tekið langan tíma að finna fyrirtæki með tengingar við þá markaði sem Fjallalamb sækist eftir. „Að koma þessu inn á háklassa veitingahús. Og þessi hefur alveg bolmagn og aðstöðu til að koma því þangað og það var akkúrat það sem við vorum að vona.“

„Þeir hafa gríðarlegan áhuga“

Og hann segir Kínverjana áhugasama um frekari viðskipti. „Þeir hafa gríðarlegan áhuga, þeir hafa smakkað kjötið og vilja gera áframhaldandi samning.“

Þyrfti að auka framleiðsluna til að anna þessu markaði

Fjallalamb sé hins vegar sterkast á innanlandsmarkaði og það sitji fyrir. Á þessari stundu sé ekki ljóst hve mikið þyrfti að auka framleiðsluna til að anna nýjum markaði í Kína. „Ef þetta verður til þess að bændur geta aukið framleiðslu og ef Kínverjar vilja, sem ég reikna með, fá meira í haust ef allt gengur vel, þá er þetta bara mjög álitlegt mál.“