Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kórónuveiran talin hafa borist til Ischgl í febrúar

02.04.2020 - 16:37
epa08293579 (FILE) - Skiing tourists in Ischgl, Austria, 30 November 2013 (reissued 14 March 2020). According to reports, the Austrian government has put popular touristic areas, Heiligenblut am Grossglockner, Paznautal, including Ischgl, and St. Anton under quarantine amid the ongoing Coronavirus crisis.  EPA-EFE/STR  AUSTRIA OUT
 Mynd: EPA
Barþjónn frá Sviss, sem vann á hinum vinsæla skemmtistað Kitzloch, er talinn hafa komið með kórónuveiruna til austurríska skíðasvæðisins Ischgl í byrjun febrúar. Hann veiktist 5. febrúar, fann fyrir litlum einkennum og fór ekki í sýnatöku fyrr en 9. mars þar sem sýkingin var staðfest.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem landlæknisembættið í Austurríki hélt í dag.  New York Times greinir frá og vitnar í frétt frá Reuters. Þar segir jafnframt að yfirvöld í Vín og Innsbruck  hafi viðurkennt að gerð hafi verið mistök.

Franz Allerberger hjá austurríska landlæknisembættinu sagði á fundinum að rekja mætti 600 sýkingar í Austurríki til Ischgl en þær væru sennilega helmingi fleiri í öðrum löndum. 

Hann sagði að kórónuveiran hafa borist til Ishcgl löngu áður en fyrsta smitið var staðfest. Þannig hefði svissneskur barþjónn á skemmtistaðnum Kitzloch, veikst 5. febrúar. Hann hefði fundið til lítilla einkenna og ekki farið í sýnatöku fyrr en rúmum mánuði seinna þar sem kom í ljós að hann var með kórónuveiruna.  

Allerberger sagði að samstarfsmaður hans á umræddum bar væri talinn vera fyrsta tilfellið þar sem hann hefði verið sá fyrsti sem leitaði til læknis. Allerberger sagði að barþjónninn hefði fyrst fundið til einkenna 2 .mars en skemmtistaðnum var lokað viku seinna.

Werner Kurz, bæjarstjóri í Ischgl, segir í samtali við Reuters að hann hafi fyrst frétt af svissneska barþjóninum á blaðamannafundinum í dag. Hann ítrekaði að fyrsta smitið hefði verið staðfest 7. mars.

Meira en 2.700 ferðamenn hafa haft samband við austurrísk neytendasamtök sem hafa boðað hópmálsókn gegn yfirvöldum í Ischgl.  Stærstur hluti þeirra er frá Þýskalandi en þar má einnig finna Norðmenn, Dani, Svía og einn Íslending. Þá er hafin sakamálarannsókn á því hvort fyrirtæki hafi leynt því að starfsmaður hans hefði greinst með kórónuveiruna í lok febrúar.

Rekja má fjölda COVID-19 smita hér á landi til Ischgl en íslensk yfirvöld voru þau fyrstu til að vara við ferðum þangað. Austurríska skíðasvæðið var sett á lista yfir hááhættusvæði þann 5. mars og öllum sem þaðan komu frá 29. febrúar var gert að fara í tveggja vikna sóttkví.