Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Kemur á óvart að niðurdæling valdi skjálftum

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Forstjóri HS Orku segir það koma sér á óvart að nýleg skjálftavirkni á Reykjanesskaganum sé að hluta til tengd við dælingu á jarðhitavökva hjá fyrirtækinu. Vökvanum hafi verið dælt niður á sama hátt í um tuttugu ár. Vísindamenn hafa komið auga á annað kvikuinnskot á Reykjanesskaga, mun vestar en það við Þorbjörn. 

Jörð tók að skjálfa á Reykjanesskaganum í janúar. Þá reis land um sex sentimetra fram í febrúarbyrjun. Svo fór land að rísa að nýju fyrri hluta mars og alls hefur land risið um 7-8 sentimetra á árinu. Núna hafa jarðvísindamenn Veðurstofunnar beint sjónum sínum að HS Orku.  

Þar er markmiðið að stunda sjálfbæra jarðhitanýtingu til raforku- og heitavatnsframleiðslu og því er ákveðnu magni af jarðhitavökva skilað aftur niður i jörðina. HS Orka dælir niður í Svartsengi jarðhitavökva sem búið er að nýta í 1253 m djúpar borholur í  samræmi við nýtingarleyfi fyrirtækisins.

„Við erum vissulega búin að stunda þarna jarðhitanýtingu í 45 ár og í 20 ár í gegnum þessa niðurdælingaholu,“ segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku. 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

„Hún virðist valda skjálftavirkni en þetta er bara mjög lítið brot af allri skjálftavirkni sem er þarna á svæðinu,“ segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar Veðurstofu Íslands.

„En það er engin breyting hjá okkur og þetta hefur verið óbreytt í 20 ár,“ segir Tómas.

Þannig að þetta kemur ykkur á óvart?

„Já þetta kemur okkur á óvart en það kemur okkur ekki á óvart að við séum á eldvirku svæði því það er auðlindin sem við erum að nýta,“ segir Tómas.

Kallar þetta á að þið gerið breytingar á ykkar verklagi?

„Við höfum ekki talið það og sjáum það ekki beint. En við erum í góðu samstarfi við vísindaráð almannavarna og munum bara halda því áfram,“ segir Tómas.

Vísindamenn hafa greint þrjú kvikuinnskot. 
„Þetta eru þá tvö innskot sem eru komin þarna við Þorbjörn. Svo erum við bara í þessum töluðu orðum að vinna úr gögnum á Reykjanesinu, suðvestast á Reykjanesskaganum og þar virðist líka vera kvikuinnskot í gangi. Það má í rauninni segja að kvikuinnskotið lyfti þarna öllu, það verður þetta landris og í rauninni þensla og það glennast út sprungur. Þannig að það myndast kjöraðstæður fyrir jarðskjálftavirkni og þarna verður meiri skjálftavirkni heldur en hefur áður mælst,“ segir Kristín.

Rúmlega sex þúsund skjálftar hafa verið á Reykjanesskaga frá því í janúar. Þetta er mesta jarðskjálftavirkni sem mælst hefur þar frá því stafrænar mælingar hófust fyrir þrjátíu árum. Innan svarta ferningsins sjást skjálftarnir við borholu HS Orku. Þar eru innan við fimm prósent af öllum skjálftum og þá er ekki hægt að rekja alla til niðurdælingar.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV