Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjöldi smita eftir sveitarfélögum

02.04.2020 - 17:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Húnaþing vestra er með hæsta hlutfall smitaðra miðað við íbúafjölda á landsbyggðinni, eða rúm tvö prósent. Flestir eru í sóttkví í Vestmannaeyjum miðað við höfðatölu, rúm átta prósent.

Hingað til hefur ekki verið mælst til þess að gefa upp námvæmlega í hvaða sveitarfélögum smit greinast. Nú hafa sóttvarnarlæknir og persónuverndarfulltrúi Landlæknis hins vegar gefið grænt ljós á að birta þær upplýsingar, það séu hagsmunir almennings að fá að vita stöðu mála hverju sinni. Aðgerðarstjórnir almannavarna í hverjum landshluta eru margar farnar að birta nákvæmar upplýsingar á Facebook um fjölda smita og fólks í sóttkví eftir póstnúmerum. 

Á kortinu má sjá fjölda smita miðað við höfðatölu. Það er byggt á tölum frá því í gær nema nýjar tölur fengust frá vestfjörðum þar sem fyrir lá að mörg ný smit höfðu greinst þar síðan í gær. Ekki fengust upplýsingar um sveitarfélög á Höfuðborgarsvæðinu, þau eru því skráð saman sem ein heild. 

 

Hæst hlutfall í Húnaþingi vestra

Hlutfallslega eru flestir smitaðir í Húnaþingi vestra. Þar eru rúmlega tvö prósent íbúa með COVID-19 eða 25 manns. Í Vestmannaeyjum hefur 1,5% íbúa greinst, eða 66 manns. Þar á eftir kemur Bolungarvíkurkaupstaður, þar er tæpt 1,3% smitað eða 12 manns. Tæplega eitt prósent er smitað í Skútustaðahreppi, en það eru þó einungis fimm tilfelli. 

Flest smit í Vestmannaeyjum

Hlutfallslega eru flestir í sóttkví í Vestmannaeyjum, rúmlega átta prósent íbúa. Í Húnaþingi vestra eru rúm sex prósent og tæp sex prósent í Borgarbyggð. 

Utan höfuðborgarsvæðisins eru flest smit í Vestmannaeyjum, næst flest í Reykjanesbæ, eða 36. 25 manns eru skráðir smitaðir í Húnaþingi Vestra og á Akureyri, 17 í Borgarbyggð og 16 í sveitarfélaginu Árborg.  

Ekki fengust upplýsingar um staðsetningu fólks í sóttkví á Austurlandi, þar eru 202 í sóttkví.