Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja. Mynd: EPA-EFE - PPD
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, hefur fyrirskipað öryggissveitum að skjóta þá sem ekki virða reglur um ferða- og samkomubann vegna kórónuveirufaraldursins.
Um helmingur landsmanna er í sóttkví og eru í þeim hópi milljónir manna sem misst hafa lífsviðurværi sitt vegna aðgerðanna.
Skömmu áður en forsetinn boðaði hertar ráðstafanir gegn þeim sem brytu gegn banninu hafði á annan tug manna verið handtekinn í höfuðborginni Manila fyrir að mótmæla matarskorti og bágum aðstæðum.
Meira en 2.300 hafa greinst smitaðir af kórónuveirunni á Filippseyjum, en hátt í 100 hafa látist úr COVID-19 sjúkdómnum.