Daði: „Við hefðum náttúrulega 100% unnið þetta“

Mynd: RÚV / RÚV

Daði: „Við hefðum náttúrulega 100% unnið þetta“

02.04.2020 - 15:15
„Ég er alveg til í að vera í Eurovision ef fólk vill hleypa mér áfram. En ég er búinn með Söngvakeppnina,“ sagði Daði Freyr þegar Núllstillingin sló á þráðinn til hans í upptökuverið í Berlín.

„Við megum fara út en það er tveggja manna reglan, maður má ekki fara út í stærri hópum,“ segir Daði um stemminguna í Berlín þar sem hann býr með Árnýju Fjólu eiginkonu sinni og dóttur þeirra. „Eina undantekningin er ef fólk býr saman, svo ef þú ert úti að labba í stærri hóp en tveir, þarf að taka með sér vegabréf til að sanna að þið búið saman ef lögreglan stoppar þig.“

Í Þýskalandi miðast svo félagslega fjarlægðin við 1,5 metra í stað tveggja eins og á Íslandi. „Ef maður fer á kaffihús þarf maður að bíða fyrir utan og fá takeaway.“ Hann segir að Þjóðverjarnir passi mjög vel upp á sitt svæði í almenningssamgöngum og á götum úti. Daði eyðir megninu af deginum í hljóðverinu að skapa tónlist og skipuleggja framtíðina. „Maður er mikið í tölvupóstum og plönum. Alls konar nýtt sem er að gerast og ég er með umboðsmanninn minn á línunni allan daginn.“

Fyrir tveimur vikum kom það í ljós að Eurovision var aflýst, Íslendingum til mikillar skapraunar. „Við hefðum náttúrulega hundrað prósent unnið þetta, engin spuring að við hefðum tekið þetta,“ segir Daði Freyr kotroskinn. En hvað tekur þá við núna? „Það er búið að hafa samband frá rosa mikið af plötufyrirtækjum, mikið af þeim stærstu, en ég ætla ekki að fara þá leið. Ég ætla að fá mér dreifingar- og publishing-fyrirtæki, en ég ætla að eiga músíkina mína sjálfur og ákveða hvenær ég gef út og hvað.“ Þá er hann núna að skipuleggja tónleikaferðalag eftir að ástandinu lýkur. „Ég mun lítið eltast við Eurovision-giggin, ætla bara að gera mitt eigið.“ Í byrjun viku var sagt frá því að Daði kemur fram í sérstökum þætti daginn sem Eurovision átti að verða, en hann segist ekki geta upplýst neitt um fyrirkomulagið á því á þessu stigi málsins.

Daði segist verða var við aukna eftirspurn eftir lögunum sínum nýlega, bæði eftir öll samkomubönnin, en líka eftir að dansmyndbandi við Think About Things var deilt víða á samfélagsmiðlum. „Ég held að flest lögin hafi slegið sitt daglega spilunar-met eftir þetta. Think About Things var að slá Spotify-metið sitt í gær, 170.000 spilanir á einum degi. Ástæðan fyrir því að það fór aftur upp núna er þetta dans-myndband.“

Daði segir aflýsingu Eurovision ákveðin vonbrigði en hún hafi þó ekki mikil áhrif á hans feril. „Það er mjög mikið í gangi. En mér finnst leiðinlegt að hafi ekki getað farið með Gagnamagnið í Eurovision-ævintýri til Rotterdam, prófa þetta Eurovision-dæmi.“ En hyggst hann snúa aftur í Söngvakeppnina? „Ég er alveg til í að vera í Eurovision á næsta ári ef fólk vill hleypa mér áfram. En ég er búinn með Söngvakeppnina. Ég ætla ekki að keppa aftur í Söngvakeppninni. Búinn að vinna það.“

Tengdar fréttir

Tónlist

Corden og Pink dýrka Gagnamagns-dansinn

Popptónlist

Daða boðið að koma fram í Eurovision þætti á keppnisdag

Popptónlist

Daði og Gagnamagnið mega keppa 2021 en þurfa annað lag

Popptónlist

Eurovision aflýst – Daði Freyr vonsvikinn