Wimbledon slegið af í fyrsta sinn í 75 ár

epa07708065 Andy Murray of Britain and Serena Williams of the US in action during their third round mixed doubles match against Bruno Soares of Brazil and Nicole Melichar of the USA during the Wimbledon Championships at the All England Lawn Tennis Club, in London, Britain, 10 July 2019. EPA-EFE/ANDY RAIN EDITORIAL USE ONLY/NO COMMERCIAL SALES
 Mynd: EPA

Wimbledon slegið af í fyrsta sinn í 75 ár

01.04.2020 - 17:00
Wimbledon-mótinu í tennis sem átti að fara fram í sumar hefur verið aflýst í fyrsta sinn síðan 1945. Ákvörðunin er tekin í ljósi útbreiðslu kórónaveirunnar.

Wimbledon-mótið sem átti að fara fram frá 29. júní til 12. júlí er eina risamótið af fjórum sem fram fer á grasi. Engar keppnir á grasvöllum fara fram í ár vegna ástandsins og þá verða hvergi atvinnumannamót til 13. júlí í það minnsta.

Ákvörðunin kemur í kjölfar þeirrar að fresta Opna franska meistaramótinu sem átti að hefjast í maí en stefnt er að halda í lok september.

„Þetta var ekki auðveld ákvörðun en hún var tekin með hag og heilsu þeirra sem koma að mótinu að leiðarljósi,“ hefur breska ríkisútvarpið, BBC, eftir Ian Hewitt sem er á meðal þeirra sem standa að mótinu.

Wimbledon-mótið er elsta tennismót heims og átti að fara fram í 134. sinn í sumar. Þetta er í fyrsta sinn sem mótið er ekki haldið frá því á árum síðari heimsstyrjaldarinnar en það fór ekki fram árin 1940 til 1945.