Vilja að Íslendingar setji heimsmet í lestri

01.04.2020 - 13:48
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Í dag byrjar nýtt lestrarverkefni fyrir alla sem búa á Íslandi. Menntamálaráðuneytið hvetur börn og fullorðna til að nýta tímann vel núna til að lesa. Ráðuneytið minnir á að það er mikilvægt að lesa mikið.

Lestrarverkefnið kallast Tími til að lesa. Nafnið vísar til þess að núna hafa margir meiri tíma en oft áður. Það hefur líka sjaldan verið meiri þörf fyrir að þjálfa hugann en núna. Árangurinn er mældur í tíma og fólk er hvatt til að skrá hvað það les lengi í einu á vefsíðunni timitiladlesa.is.

Á vefsíðunni er líka hægt að fylgjast með sameiginlegum lestri þjóðarinnar frá degi til dags. Á næstu fjórum vikum safnast þar saman ýmsar upplýsingar um lestur, hugmyndir að lesefni fyrir ólíka aldurshópa og myndskeið þar sem rithöfundar og aðrir hvetja til lesturs og frá því hvað og hvar þeim finnst gaman að lesa.

Tími til að lesa stendur til 30. apríl. Að því loknu verður reynt að fá árangurinn skráðan í Heimsmetabók Guinness. Ráðuneytið segir að slíkt hafi ekki verið reynt áður. Þetta yrði því fyrsta heimsmet sinnar tegundar.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi