Samkomubannið verður framlengt

01.04.2020 - 18:12
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggur til að samkomubann verði áfram í gildi til loka apríl. Hann ætlar að bera þetta undir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í dag. Þetta er gert til þess að reyna að vinna á móti því að kórónuveiran breiðist út. Samkomubannið átti fyrst að vera til 13. apríl en það verður að minnsta kosti tveimur vikum lengra

Þórólfur sagði frá þessu á upplýsingafundi Almannavarna og Landlæknis í dag. Hann sagði líka frá því í hvaða átt faraldurinn hefur þróast síðustu daga. Um níu prósent þeirra sem Landspítalinn leitaði að kórónuveirunni í voru með smit en aðeins eitt prósent af þeim sem voru greind hjá Íslenskri erfðagreiningu. Þetta þýðir að það er ekki mikið um smit úti í samfélaginu og að samkomubannið virkar vel. Það er samt nógu mikið um smit til að það er mikið álag á spítölunum.

Leggur til framlengt samkomubann

Þórólfur ætlar að leggja til að heilbrigðisráðherra framlengi samkomubann til loka apríl. Tilgangurinn með samkomubanninu, og öðrum fyrirmælum til fólks, fyrirtækja og félaga, er að sporna gegn því að kórónuveiran breiðist út. Þórólfur býst ekki við að bannið verði hert frekar. Hann telur ekki heldur að það verði slakað á aðgerðum á næstunni. Þegar fer að líða nær mánaðamótum verður ákveðið hvort einhverjar breytingar verða gerðar, hvað þær verða miklar og hvað þær eiga að taka langan tíma.

Veiran virðir ekki frídaga

Þórólfur sóttvarnalæknir hvetur fólk til að standa saman í að hindra að kórónuveiran breiðist út. Hann leggur sérstaka áherslu á við hjálpumst að við að verja fólk sem er viðkvæmt fyrir því að veikjast. „Ég minni á að við þurfum að halda áfram með þessar aðgerðir. Veiran mun ekki virða frídaga, hún mun ekki virða páska,“ segir Þórólfur.

Íslensk erfðagreining er að byrja á nýrri rannsókn og hefur sent boð til einstaklinga um að taka þátt í henni. Þórólfur hvetur fólk sem fær boð til að taka þátt í rannsókninni.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi