Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Samkomubann út apríl

01.04.2020 - 14:21
Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ætlar að leggja til við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í dag að viðbrögð við COVID-19 verði framlengd út mánuðinn. Það á við um samkomubann og önnur fyrirmæli til almennings, fyrirtækja og félagasamtaka um aðgerðir til að sporna við útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Þegar samkomubannið var sett á í upphafi var ákveðið að það stæði til 13. apríl. Nú er ljóst að það stendur minnst hálfan mánuð umfram það.

Þórólfur greindi frá þessu á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. Hann gerði grein fyrir vexti faraldursins síðustu daga og sagði að tekist hefði að sveigja niður vöxt faraldursins. Þórólfur sagði að óvenju mörg sýni hefðu verið greind fyrir birtingu talna dagsins. Um níu prósent þeirra sem voru greindir hjá veirufræðideild Landspítala reyndust smitaðir en eitt prósent hjá Íslenskri erfðagreiningu. „Þessi hlutfallslega lága tala jákvæðra hjá deCODE sýnir að við erum ekki með mikið samfélagslegt smit en þó nægilegt til að hafa þennan vöxt sem er í gangi núna og veldur þessu álagi á spítalana.“

Leggur til framlengt samkomubann

Þórólfur sagðist myndu leggja til við heilbrigðisráðherra í dag að samkomubann og aðrar takmarkanir á samskiptum fólks og starfsemi verði framlengt út mánuðinn. Hann kvaðst ekki eiga von á að hert yrði á aðgerðum eða slakað á þeim fyrir þann tíma. Þegar nær dregur mánaðamótum má gera ráð fyrir að tilgreint verði hvert framhaldið verður, hvort og þá hversu miklar breytingar verði gerðar á ráðstöfunum og á hversu löngum tíma.

Veiran virðir ekki frídaga

Sóttvarnalæknir hvatti fólk til að standa áfram saman í að hindra framgang sýkingarinnar og lagði sérstaka áherslu á að standa vörð um viðkvæma hópa. „Ég minni á að við þurfum að halda áfram með þessar aðgerðir. Veiran mun ekki virða frídaga, hún mun ekki virða páska.“

Íslensk erfðagreining er að fara af stað með slembiúrtaksrannsókn, og hefur sent boð á einstaklinga um að taka þátt í henni. Þórólfur hvatti fólk til þáttöku í rannsókninni.