Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hundrað geita hjörð yfirtekur velskan strandbæ

01.04.2020 - 04:33
Tugir kasmírgeita, sem venjulega halda sig upp til fjalla og sjaldan eða aldrei hætta sér lengra en inn í ystu og fáförnustu úthverfi bæjarins, ráfa um Llandudno þegar íbúarnir halda sig inni við vegna COVID-19
 Mynd: AP
Þegar kötturinn er frá fara mýsnar á stjá, segir í ensku máltæki, og það má hæglega yfirfæra á ástandið í velska bænum Llandudno þessa dagana. Þar er það þó ekki kötturinn sem er fjarri góðu gamni, heldur manneskjan, og í kasmírgeitur koma þar í músastað.

Í miðbæ Llandudno, um 20.000 manna strandbæ í norðanverðu Wales, er varla köttur á kreiki þessa dagana og enn færra fólk, vegna kórónuveirufaraldsins og tilmæla stjórnvalda um að fólk haldi sig heima nema brýna nauðsyn beri til annars. Þar er hins vegar heil hjörð hvítra kasmírgeita að spóka sig á mannauðum götum og torgum, sumar með nýborna kiðlinga í eftirdragi. Þær flækjast um bæinn í misstórum hópum eins og hverjir aðrir túristar,  hnusandi af því sem hnusandi er og af narta í nýgræðinginn sem farinn er að gægjast upp úr moldinni.

Um 120 geitur eru í þessari hjörð, sem venjulega heldur sig á bæjarfjallinu Orme, mátulega fjarri mannabyggð, nema í verstu veðrum, þegar þær eiga það til að leita skjóls í fáförnum götum í ystu úthverfum bæjarins.

Veita bæjarbúum ómælda skemmtun

Bæjarfulltrúinn Carol Marubbi telur að mannfæðin í bænum - og í fjöllunum sem geiturnar ráfa venjulega um - hafi dregið þær til byggða og alla leið í miðbæinn. „Þær eru forvitnar, geiturnar hérna, og ég held að þær séu bara að spá i hvað sé eiginlega að gerast, eins og allir aðrir,“ segir Marubbi. Hún segir innilokaða Llandudno-búa stolta og ánægða með geiturnar og skemmta sér konunglega við að fylgjast með ferðum þeirra og uppátækjum út um gluggann. 

„Það eru fáir á ferli uppi á fjalli núna, svo þær koma bara niður í stórhópum,“ segir Marubbi. „Það er enginn annar á svæðinu svo þær hafa líklega ákveðið að þær geti allt eins yfirtekið plássið.“

Tugir kasmírgeita, sem venjulega halda sig upp til fjalla og sjaldan eða aldrei hætta sér lengra en inn í ystu og fáförnustu úthverfi bæjarins, ráfa um Llandudno þegar íbúarnir halda sig inni við vegna COVID-19
 Mynd: AP
Ekkert var að hafa í lokaðri fatabúðinni, en hver veit nema ruslafatan lumi á einhverju sem gæti heillað geit
Tugir kasmírgeita, sem venjulega halda sig upp til fjalla og sjaldan eða aldrei hætta sér lengra en inn í ystu og fáförnustu úthverfi bæjarins, ráfa um Llandudno þegar íbúarnir halda sig inni við vegna COVID-19
 Mynd: AP
Geiturnar á Ormefjalli eru miklar mannafælur og fara því sjaldan eða aldrei í bæinn. Nú þegar engir menn eru þar til að fæla þær nota þær tækifærið til að skoða sig um.
Tugir kasmírgeita, sem venjulega halda sig upp til fjalla og sjaldan eða aldrei hætta sér lengra en inn í ystu og fáförnustu úthverfi bæjarins, ráfa um Llandudno þegar íbúarnir halda sig inni við vegna COVID-19
 Mynd: AP
Llandudno er fjölsóttur ferðamannabær. Einu túristarnir þar núna eru þó ferfættir, kafloðnir, stórhyrndir og ákaflega velkomnir, segir bæjarfulltrúinn Carol Marubbi, sem skemmtir sér vel við að fylgjast með uppátækjum þeirra út um gluggann.
Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV