Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Apple og Google hafa ekki samþykkt smitrakningar-appið

01.04.2020 - 14:26
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Smíði smitrakningar-apps, sem er liður í viðamiklum aðgerðum til að hægja á og vonandi minnka útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19, er lokið. Í tilkynningu frá landlæknisembættinu í dag kemur fram að appið sé væntanlegt til niðurhals í App store og Google Play, en annað kom í ljós á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Alma Möller landlæknir greindi þá frá því að appið er ekki komið í loftið, þvert á það sem áætlað var. Apple og Google hafa ekki samþykkt það, en eru með appið til skoðunar áður en það verður aðgengilegt í þeirra verslunum. Stórfyrirtækin eru að rýna tilgang þess og öryggi áður en það verður samþykkt.

Notkun appsins byggir á samþykki notenda, bæði til að taka appið í notkun og til miðlunar upplýsinga síðar meir ef þess gerist þörf, en þetta er kallað tvöfalt samþykki. Appið notar GPS staðsetningargögn og eru upplýsingar um ferðir viðkomandi eingöngu vistaðar á síma notanda. Ef notandi greinist með smit og rakningateymið þarf að rekja ferðir þá fær notandi beiðni um að miðla þeim upplýsingum til rakningateymisins. Um leið og smitrakningateymið biður um aðgang að gögnunum mun það einnig óska eftir kennitölu viðkomandi svo ekki fari á milli mála hver er á bakvið gögnin. 

„Þannig er tryggt að enginn hefur aðgang að þessum upplýsingum nema að notandinn vilji það. Staðsetningargögnunum verður svo eytt um leið og rakningateymið þarf ekki lengur á þeim að halda,“ segir í tilkynningu landlæknis.

Hönnunarteymi appsins var í reglulegu sambandi við Persónuvernd til að upplýsa um verkefnið og hefur öryggi kerfisins staðist úttekt óháðs aðila.