Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Var bara lokaður inni í þessum kofa úti í skógi“

Mynd með færslu
 Mynd: Birkir Eyþór Ásgeirsson - RÚV

„Var bara lokaður inni í þessum kofa úti í skógi“

31.03.2020 - 13:00
Íþróttadeild RÚV mun næstu vikur fá fólk til að rifja upp sínar helstu minningar sem tengjast íþróttum. Fyrrum borgarstjórinn og skemmtikrafturinn Jón Gnarr segir sína sögu.

„Stóran hluta af lífi mínu æfði ég júdó og mér fannst mjög gaman að fylgjast með júdókeppnum en það var svo sem ekkert sem ég skynjaði að almenningur væri að pæla í.“ segir Jón.

Íþróttaferill Jóns var ekki langur og þá hefur hann alltaf átt erfitt með að setja sig inn í hverskyns íþróttir þrátt fyrir margar tilraunir.

„Ég hef svo oft reynt að setja mig inn í eitthvað eins og heimsmeistarakeppni í fótbolta eða eitthvað svona. En ég held það hafi eitthvað með það að gera að ég er svo vitlaus eða eitthvað að ég næ ekki að halda þræði í þessu. Kannski vantar einhvern grunn eða eitthvað en ég dett alltaf út, ruglast og man ekkert hvað er hvað.“

Öfundar vinina af boltanum

„Ég hef oft öfundað marga vini mína í gegnum tíðina sem að eru löglega afsakaðir frá börnum af því að það er einhver keppni í gangi og þeir hafa leyfi til að hálfvegis flytja heiman frá sér. Sitja einhversstaðar, drekka bjór og horfa á fótboltaleiki. Ég á fimm börn og hefur oft þótt freistandi að vera með eitthvað svona „alibi“. Að vilja að horfa á júdó á Ólympíuleikunum er ekki alveg sama afsökunin frá börnunum.“

„Ég reyndi að setja mig inn körfuboltann þegar var byrjað að sýna frá NBA hérna á Íslandi 1990 og eitthvað. Þá reyndi ég að koma mér upp einhverju svona, varð Chicago Bulls-maður en það var sama, ég náði þessu ekki og týndi þræðinum.“

„Þá er ég af mikilli Liverpool-fjölskyldu og ef einhver spyr mig hver sé uppáhaldsleikmaðurinn minn í Liverpool þá myndi ég segja Kevin Keegan af því það er síðast þegar ég var að fylgjast með þessu.“ segir Jón en hinn tæplega sjötugi Keegan lék sinn síðasta leik fyrir Liverpool árið 1977.

Mynd með færslu
 Mynd: Liverpool
Kevin Keegan, uppáhaldsleikmaður Jóns í Liverpool.

Þáttaskil í Svíþjóð

„En svo gerist það, og það minnistæðasta fyrir mig er sænska deildin í íshokkí þegar ég bjó úti í Svíþjóð. Þá var ég að vinna þar úti, ég var einn og bjó í kofa úti í skógi. Þá var Svíþjóðarmeistarakeppnin í íshokkí í gangi og þetta var í rauninni það eina sem var í sjónvarpinu. Þannig þegar ég var kominn úr vinnunni og út í skóg var ekkert að gera, ég gat ekki einu sinni farið í gönguferðir því það var kolniðamyrkur. Ég var bara lokaður inni í þessum kofa úti í skógi og ég byrjaði bara að horfa, þetta var það eina sem ég gat horft á.“

„Ég hafði aldrei haft nokkurn einasta áhuga eða vit á íshokkí en datt alveg inn í þetta. Ég var farinn að þekkja leikmenn, ég vissi hvenær leikirnir voru og var spenntur að koma heim úr vinnunni og ná hinum og þessum leiknum. Ég hélt með MODO og síðan var úrslitaleikurinn í Globen í Stokkhólmi og mig langaði að fara og horfa á úrslitaleikinn og standa með mínu liði. Þetta var alveg einstakt í mínu lífi, þetta var alveg ómeðvitað og kom svolítið aftan að mér.“

„Svo komst ég ekki því ég fékk ekki frí úr vinnunni.“ segir Jón.

Þriggja mánaða gaman

Það fór svo að MODO tapaði svo í oddaleik fyrir Malmö í úrslitum. „Það hefur aldrei gerst áður en ég var kominn svo vel inn í þetta að ég var kominn í umræður og þrætu í vinnunni og síðan þegar mínir menn töpuðu varð ég að athlægi. Menn voru að senda mér einhverjar pillur og svona. En síðan hef ég ekkert á neinar íþróttir horft þannig séð nema bara þegar íslenskir íþróttamenn eru að standa sig eitthvað vel.“

„Þetta voru einhverjir þrír mánuðir sem þetta stóð yfir og svo var þetta bara búið hvað mig varðaði. Svo fór ég bara aftur til Íslands og þá var ekkert verið að spá í íshokkí.“

„Það er ekki rétt sem hefur oft verið sagt að ég sé einhver antisportisti, mig bara vantar grunninn. Ég hef alveg reynt.“ segir Jón.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Bílstjórinn rataði ekki um London og fór að gráta

Íþróttir

„Þessi tími gleymist aldrei“