Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sjá fram á samdrátt í bílasölu

31.03.2020 - 12:41
Mynd með færslu
María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.  Mynd:
Sala á nýjum fólksbílum hefur dregist saman um 7,4 prósent í mars miðað við sama mánuð í fyrra. Útlit er fyrir að samdrátturinn verði meiri næstu tvo mánuði enda hafa bílaleigur keypt um 40 prósent nýrra fólksbíla síðustu ár.

Það vantar síðustu tvo daga marsmánaðar inn í sölutölurnar. Samdráttur upp á 7,4 prósent segir þó ekki alla söguna, að sögn Maríu Jónu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins. „Þeir bílar sem eru skráðir í mars eru að sjálfsögðu bílar sem að voru pantaðir fyrir jafnvel tólf vikum, ef ekki fyrr. Þannig að við erum að afhenda bíla sem eru að koma til landsins,“ segir hún. Það sé ljóst að tíminn framundan verði erfiður. „Við sjáum að höggið mun sennilega koma á okkur seinna, í apríl, maí, þar sem að við erum að sjá minni sölu.“ Samdráttur í sölu bíla á árinu er 11,9 prósent. 

Yfirleitt mikil sala í apríl og maí

Bílaleigur hafa keypt um 40 prósent nýrra fólksbíla síðustu ár. Næstu vikur blasir við mikill samdráttur í ferðaþjónustu. „Bílaleigur hafa náttúrulega orðið fyrir gríðarlegu höggi og það er verið að skoða hvað verður gert við þá bíla sem hafa verið pantaðir, hvenær þeir fara í afhendingu og það má gera ráð fyrir að það verði ekki fyrr en með haustinu, ef ekki seinna. Apríl og maí hafa yfirleitt verið stórir mánuðir en það má gera ráð fyrir að þarna verði töluverður samdráttur.“

Laga starfsemina að breyttum aðstæðum

Starfsfólk bílaumboða finnur fyrir því að færri koma að skoða bíla nú en áður. María segir að haldinn hafi verið fundur með félagsmönnum Bílgreinasambandsins í gær þar sem ræddar voru sóttvarnaaðgerðir. Til dæmis séu allir bílar og lyklar sótthreinsaðir og vel sé passað upp á að nálægð milli fólks sé ekki meiri en tveir metrar. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir