Kynlíf samkynhneigðra áfram bannað í Singapúr

31.03.2020 - 06:46
Erlent · Asía · Jafnrétti · Singapúr
epa03289455 Participants gather at a gay rights rally called Pink Dot at a park in central Singapore, 30 June 2012. Over 15,000 people participated in Pink Dot this year to form a human circle illuminated by pink flashlights to draw attention to the battle against sexual discrimination.  EPA/STEPHEN MORRISON
 Mynd: EPA
Dómstóll í Singapúr hafnaði í gær kröfu um að afglæpavæða kynlíf samkynhneigðra í landinu. Þrír samkynhneigðir karlmenn sóttu málið og sögðu lögin stangast á við stjórnarskrána. Þar segir að karlmenn sem stunda saman kynlíf, hvort sem er á heimili eða opinberum vettvangi, geti átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi. Dómarinn sagði lögin mikilvæg endurspegla viðhorf almennings og trú. 

Yfirvöld í Singapúr framfylgja sjaldan lögunum, sem voru sett árið 1938 þegar ríkið tilheyrði bresku krúnunni. Hinsegin aðgerðarsinnar hafa nokkrum sinnum reynt að fá þeim hnekkt undanfarin ár, en aldrei tekist. Von vaknaði í brjóstum þeirra þegar Indverjar afnámu svipuð lög árið 2018. Ástæðan sem núverandi forsætisráðherra landsins hefur gefið er af svipuðum meiði og dómarans, að þau endurspegli íhaldssemi samfélagsins. 

Lögmaður sækjenda sagði að úrskurði loknum að hann væri mjög vonsvikinn. Ákvörðunin væri óforsvaranleg og að því er virtist tekin af geðþótta.

Singapúr er eitt sjötíu ríkja í heiminum þar sem samkynja sambönd eru ólögleg. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi