Bjarki: Erum í því að slökkva elda þessa dagana

Mynd: María Björk Guðmundsdóttir / RÚV

Bjarki: Erum í því að slökkva elda þessa dagana

31.03.2020 - 15:07
Bjarki Gunnlaugsson, umboðsmaður knattspyrnumanna hjá umboðsskrifstofunni Stellar Nordic, segir umhverfi umboðsmanna hafa breyst mikið á síðustu vikum. „Við erum talsvert í því að slökkva elda og sinna okkar leikmönnum. Félögin hafa dregið saman seglin, eðlilega,“ segir Bjarki sem ásamt félaga sínum, Magnúsi Agnari Magnússyni, sér um Norðurlandadeild Stellar Group.

„Liðin fara ýmsar leiðir í þessu. Sum reiða sig á aðstoð stjórnvalda og önnur fara beint í það að semja um prósentulækkanir. Okkar hlutverk er svo að halda leikmönnunum sáttum,“ segir Bjarki og bætir við að enginn leikmaður sleppi við launalækkun. 

„Ég held að það óumflýjanlegt að taka á sig lækkun. Við hvetjum að minnsta kosti alla okkar leikmenn til að taka þátt í aðgerðum félaganna og þeir hafa gert það. Þetta er tímabundið ástand.“

Bjarki, sem lék sjálfur 27 landsleiki, stofnaði umboðsmannaskrifstofuna Total Football ásamt öðrum 2011. Hann býst við að svokölluðum félagaskiptagluggum verði frestað. 

„Annars verður bara eitt allsherjar „kaos“. Hvað verður veit enginn, en ég held að það sé óhjákvæmilegt að fresta þessu öllu,“ segir Bjarki. 

Hægt er að sjá allt viðtalið við Bjarka í spilaranum hér að ofan.