Atvinnuleysi gæti rokið upp í 14% í apríl

31.03.2020 - 17:21
Mynd: Geir Ólafsson / Geir Ólafsson
Atvinnuleysi verður talsvert meira en spáð var í síðustu viku vegna þess að mun fleiri hafa sótt um atvinnuleysisbætur. Nú er útlit fyrir að atvinnuleysi í apríl verði um 13 af hundraði og 12% í maí. Þá er því spáð að atvinnuleysi á þessu ári verði að meðaltali um 8%.

Atvinnuleysi mældist um 3% framan af ári í fyrra en fór að aukast í lok ársins. Í síðasta mánuði mældist það 5% sem var ástæða til að hafa áhyggjur af. Eftir fall WOW air fór að halla undan fæti. Í febrúar bárust aðeins tvær tilkynningar um fjöldauppsagnir ef hægt er að komast svo að orði. Alls var 62 sagt upp í störfum sem tengdust ferðaþjónustu, 40 á höfuðborgarsvæðinu og 22 á Vesturlandi. En nú kveður heldur betur við annan tón sem kemur reyndar ekki á óvart. Aðalhagfræðingur Íslandsbanka spáir því í Morgunblaðinu í dag að tekjutap í ferðaþjónustunni geti numið um 260 milljörðum frá miðjum mars til loka ágúst. Veruleikinn er að algjört hrun blasir við í ferðaþjónustunni sem hefur síðan áhrif út um allt atvinnulífið.

22 hópuppsagnir

Tölur Vinnumálastofnunar um hópuppsagnir, umsóknir um bætur vegna minnkaðs starfshlutfalls og umsóknir um atvinnuleysisbætur staðfesta það. Um miðjan dag í dag höfðu borist tilkynningar frá 22 fyrirtækjum um hópuppsagnir sem ná til yfir 900 starfsmanna. Þá hafa borist umsóknir frá um 23.000 um hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls.

Avinnuleysi gæti farið í 14%

Vinnumálastofnun gerði ráð fyrir í spá sem gerð var á fimmtudaginn að umsóknir vegna hlutabóta yrðu um 19 þúsund en gætu farið í 20 þúsund. Atvinnuleysi á ársgrundvelli yrði 7,4% á þessu ári. Óvissumörkin voru talsverð. Háspáin hljóðaði upp á 8,3% atvinnuleysi en lágspáin upp á 6,6%. Vinnumálastofnun gerir líka ráð fyrir að atvinnuleysi haldi áfram á næsta ári, verði að meðaltali 6,4%. Svartsýnasta spáin var að atvinnuleysi á næsta ári gæti farið í 8%. Spá stofnunarinnar var í síðustu viku að atvinnuleysi yrði 10,8% í næsta mánuði og 10% í maí. Þetta var mesta atvinnuleysi sem mælst hefur frá því að reglulegar mælingar hófust 1980. En það er erfitt að spá á þessum tímum og spáin hefur breyst talsvert. Nú eru horfur á að atvinnuleysið í næsta mánuði verði um 13 af hundraði og 12% í maí. Miðað við óvissumörk gæti atvinnuleysið jafnvel farið í 14% í apríl. Það er mismikið eftir landshlutum. Líklega mest á Suðurnesjum þar sem það gæti farið upp í 20 af hundraði.  Mesta atvinnuleysi sem mælst hefur var í febrúar 2010, 9,3%.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Henný Hinz

Aðgerðir stjórnvalda hafa áhrif á framhaldið

Óvissan er mikil og erfitt að spá fram í tímann, segir Henný Hinz hagfræðingur ASÍ. En óttast Alþýðusambandið að atvinnuleysið verið langvinnt?

„Að hluta til mun það ráðast af því hvað það tekur langan tíma að ná tökum á faraldrinum bæði hér heima og erlendis vegna þess að atvinnuleysið er að lenda langmest á ferðaþjónustunni,“ segir Henný. Vissulega bitni það á öðrum greinum atvinnulífsins en mestu ráði hvenær ferðaþjónustan nái sér aftur á strik. Það ráði miklu um hvernig staðan á vinnumarkaði muni þróast.

„Svo er annað sem við horfum mjög mikið til. Það er hversu fljótt við grípum til svokallaðra virkra vinnumarkaðsaðgerða þar sem við þjónustum þann hóp sem er að missa vinnuna. Gerum fólki til dæmis kleift að sækja sér aukna menntun og svo framvegis. Þetta getur allt saman haft veruleg áhrif á hver langtímaáhrifin verða. Þess vegna leggjum við mikla áherslu á það að stjórnvöld horfi strax til þessara aðgerða. Það hefur mikil áhrif á framhaldið,“ segir Henný.  

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi