Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

925 skráðir í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar

Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
925 hafa skráð sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Framkvæmdastjóri á Heilbrigðisstofnun Austurlands segir mönnun stærstu áskorunina á þessum tíma og það vanti ekki síður fólk sem geti gengið í störf þar sem ekki er krafist fagmenntunar.

Heilbrigðisstofnanir munu þurfa að takast á við mönnunarvanda vegna farsóttarinnar líkt og þegar eru dæmi um. Fólk sem er reiðubúið að hlaupa í skarðið og manna stöður þegar á þarf að halda skráir sig í bakvarðasveit heilbrigðsþjónustunnar sem heilbrigðisráðuneytið heldur utan um.

Hafa þegar leitað í listann

Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Austurlands segir að mönnun sé stærsta áskorunin á þessum tímum og þau hafi þegar leitað í listann. „Það þarf svo lítið til að við höfum ekkert af því við erum með svo fáa í hverri stétt. Við erum með nokkur einmenningshéröð svo sóttkví á einum stað getur haft gríðarleg áhrif fyrir byggðakjarnann“.

Hafa líka sína eigin bakvarðasveit

Heilbrigðisstofnanir og sveitarfélög hafa mörg einnig sett á fót sína eigin bakvarðasveit. 56 hafa skráð sig hjá heilbrigðisstofnun Austurlands. Nína Hrönn segir fleiri fagmenntaða skrá sig á bakvarðalista ráðuneytisins en það vanti ekki síður fyrir þau störf sem krefjist ekki endilega fagmenntunar. 

„Eins og í þjónustudeildirnar, móttökuritara, ræstingu, eldhús og í aðhlynningu á hjúkrunarheimilum. Það fólk getur líka farið í sóttkví eða veikst og það eru störf sem við getum ekki verið án“. 

Í dag eru 925 skráðir í þrettán starfsstéttir í bakvarðasveitina.

 • 22 geislafræðingar
 • 14 heilbrigðisfræðingar
 • 226 hjúkrunarfræðingar
 • 26 lífeindafræðingar
 • 45 lyfjafræðingar
 • 21 lyfjatæknir
 • 4 ljósmæður
 • 85 læknar
 • 13 náttúrufræðingar í heilbrigðisþjónustu
 • 89 sjúkraflutningamenn
 • 196 sjúkraliðar
 • 25 sjúkraþjálfarar
 • 27 tannlæknar

Þá eru 109 læknanemar á skrá og 19 nemar í hjúkrunarfræði.

Af þeim öllum eru 445 reiðubúnir að sinna sjúklingum með COVID-19, 648 geta sinnt klínískum störfum, 551 símsvörun og fjarþjónustu og 698 geta sinnt annarri nauðsynlegri þjónustu.  

431 óskar eftir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem starfsstöð en 169 eftir heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. 229 er sama hvar á landinu þeir starfa. 596 skrá sig á Landspítalann en 86 á Sjúkrahúsið á Akureyri.