400 umsóknir á fyrsta klukkutímanum í morgun

Mynd með færslu
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.  Mynd:
Rúmlega 23 þúsund manns hafa sótt um bætur vegna skerts starfshlutfalls hjá Vinnumálastofnun og býst forstjóri stofnunarinnar við því að umsóknirnar verði enn fleiri þegar líður á daginn. Langflestar umsóknir eru á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum.

Frá því opnað var fyrir umsóknir um bætur vegna skerts starfshlutfalls þann 25. mars hefur fjöldi umsókna á hverjum degi hlaupið á þúsundum. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálstofnunar, á von á miklum fjölda umsókna í dag, þennan síðasta dag fyrir mánaðamót. „Bara fyrir klukkan 10 í morgun voru 400 nýjar umsóknir komnar og þær eru núna samtals 23 þúsund rúmlega sem eru komnar inn. Þannig að þetta heldur áfram að berast.“

Mest á Suðvesturhorninu

Þessar 23 þúsund umsóknir koma frá 12 þúsund fyrirtækjum. Unnur segir að langflestar umsókninar komi frá fólki sem er búsett á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum þar sem stærstu ferðaþjónustufyrirtækin eru starfrækt. „Þetta eru greinar sem tengjast ferðaþjónustu sem eru langstærsti hlutinn af þessu. Allt í farþegaflutningum, gistingarnar, veitingastaðirnir.“

Í gærkvöldi höfðu 17 fyrirtæki tilkynnt um hópuppsagnir og var alls 695 manns sagt upp í þeim. Viðbúið er að þeim fjölgi einnig. Umsóknir um almennar atvinnleysisbætur eru um 5.400.

Spá metatvinnuleysi

Í spá Vinnumálastofnunar sem birt var í síðustu viku var gert ráð fyrir að um 19 þúsund manns myndu sækja um greiðslur vegna minnkaðs starfshlutfalls og að atvinnuleysi í apríl og maí yrði á bilinu 10 og 11 prósent. Það yrði þá mesta atvinnuleysi sem sést hefur í einstökum mánuðum frá því farið var að halda skipulega utan um atvinnuleysisskráningu um 1980.

Mikið álag er á skrifstofur Vinnumálastofnunar og enn er verið að klára að uppfæra tölvukerfi stofnunarinnar í samræmi við hin nýju lög um skert starfshlutfall. Greiðsla bóta vegna skerts starfshlutfalls verður því þann 7. apríl. „Við stefnum að því að reyna allt sem við getum og ég býst nú alveg við því að við verðum búin að greiða öllum fyrir 7. apríl.“

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi