Efasemdir um að Norwegian lifi af ferðabann

23.03.2020 - 17:00
Mynd: Norwegian / Norwegian
Miklar efasemdir eru í Noregi um að flugfélagið Norwegian lifi ferðabann vegna krórónuveirunnar af. Skuldir eru miklar og bæði ríki og fjárfestar hika við að koma félaginu til bjargar. Hins vegar bendir margt til að víðtækar lokanir hafi dregið úr smiti vegna veirunnar í Noregi.

Fá 36 milljarða frá ríkinu

Sárasti höfuðverkurinn hjá norsku ríkisstjórninni er rakinn til flugfélagsins Norwegian. Skuldirnar eru óskaplegar og nú er félagið í raun lagst í dvala vegna kórónuveirunnar. Ríkið borgar nú félaginu fyrir að fara um 30 ferðir á dag en það er aðeins brot af því sem flugfloti upp á 160 vélar getur sinnt. 

Og það er búið að heita félaginu opinberum styrk upp á 3 milljarða norskra króna – jafnvirði 36 milljarða íslenskra – til að forða félaginu frá gjaldþroti þar til annað kemur í ljós um flugrekstur í heiminum þegar og ef kórónafaraldurinn gengur yfir. Hverjir kaupa flugferðir þá?

Raunar er það svo allt það fé sem norska ríkisstjórnin leggur stærri fyrirtækjum landsins til með niðurfellingu gjalda og ábyrgðum dugar ekki fyrir skuldum Norwegian. 

Gengi hlutabréfa í félaginu fellur jafnt og þétt og nýjasti björgunarpakkinn frá ríkisstjórninni var með þeim skilyrðum að hluthafarnir legðu líka fram 10 prósent á móti ríkinu. Núna virðist sem djúpt sé á þeim peningum frá eigendunum.

700 milljarða króna skuldir

Á það er bent að vandi félagsins stafi ekki bara af ferðabanni vegna veirunnar heldur vegna mikillar skuldsetningar og ofvaxtar á síðustu árum. Félagið hafi verið rekið með miklu tapi undanfarin ár og ekki mátt við minnsta samdrætti í eftirspurn. Hvaða kreppa sem var gat því sett félagið á hausinn. Skuldirnar eru nú taldar yfir 700 milljarðar talið í íslenskum krónum

Þessi staða veldur því að nú er ýmist rætt um að ríkið láti af stuðningi eða að ríkið þjóðnýti félagið. Í viðskiptaskrifum blaðanna er spáð í hvor leiðin sé illskárri. Ein leið er að ríkið leggi til nýtt hlutafé og að bréf núverandi eigenda verði þar með verðlaus. Þetta var gert hér til lands árið 1993 þegar bankar landsins urðu gjaldþrota. En þá situr ríkið líka uppi með allar skuldirnar og flugfélag í lamasessi. 

Hin leiðin er að hætt tilraunum til að bjarga félaginu. Aftenposten, stærsta morgunblað Noregs, mælir með því í leiðara í dag. Flugfélagið hafi mest af sinni starfsemi í útlöndum og gegni ekki lykilhlutverki í samgöngum landsmanna. Hins vegar leiði fyrsti stuðningur af sé enn meiri stuðning sem aldrei sjái fyrir endann á.

Baráttan við veiruna ekki vonlaus

Því eru fáir bjartsýnisspámenn fyrir hönd Norwegian. Hins vegar þykir baráttan við kórónaveiruna ekki vonlaus. Smit hefur haldist í jafnvægi síðustu daga með um 200 nýjum smituðum á dag. Lokanir og samkomubann hafa haft áhrif til að hemja smitið – en efnahagslegt tap er gífurlegt og bætist við stöðugt fallandi olíuverð og fallandi gengi krónunnar.

Norður-Noregur er nær smitfrír og þar norður frá hafa sveitarfélögin haft forystu um harkalegar lokanir en sett alla Sunnlendinga í sóttkví. Næstu daga er ætlunin að endurmeta stöðuna og hugsanlega að opna skóla að einhverju leyti en þeir hafa verið lokaðir í meira en viku. 

 

Gísli Kristjánsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi