Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Yfirvöld í Tíról sökuð um græðgi vegna Ischgl

21.03.2020 - 16:53
epa08293578 (FILE) - Tourists enjoy a sunny winter day in front of a restaurant at a ski resort in St. Anton am Arlberg, Austria, 12 January 2012 (reissued 14 March 2020). According to reports, the Austrian government has put popular touristic areas, Heiligenblut am Grossglockner, Paznautal, including Ischgl, and St. Anton under quarantine amid the ongoing Coronavirus crisis.  EPA-EFE/STR AUSTRIA OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þrýstingur á ráðamenn í austurríska héraðinu Tíról virðist vaxa með degi hverjum. Danskir, austurrískir og þýskir fjölmiðlar telja þá hafa brugðist seint og illa við ábendingum frá Íslandi um að kórónuveirusmit hefði stungið sér niður á skíðasvæðinu Ischgl. Afleiðingin er sú að sóttvarnarstofnun Robert Koch í Berlín hefur sett Tíról í sama flokk og Wuhan, Íran og norðurhluta Ítalíu.

Í ítarlegri umfjöllun Jyllands Posten í dag kemur fram að meira en ein milljón ferðamanna komi til Ischgl á hverju ári. Þar búa 1.600 manns. „Það er ekki síst frá Ischgl sem kórónuveiran hefur borist um Evrópu,“ segir í grein Jyllands Posten. 

Heilbrigðisyfirvöld sögð undrandi

Talið er að 139 Danir hafi komið sýktir frá Austurríki í byrjun mars. Langflestir höfðu staðið á skíðum í Ischgl.  Jyllands Posten segir að heilbrigðisyfirvöld í öðrum Evrópulöndum setji nú spurningarmerki við viðbrögð yfirvalda í Tíról eftir að þau fengu tilkynningu um fyrsta smitið.

Sú tilkynning kom frá Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnarlækni á Íslandi, sem setti svæðið á lista yfir hááhættusvæði þann 5. mars. Allir sem komu þaðan áttu að fara í tveggja vikna sóttkví.

Jyllands Posten segir að engu síður hafi partýið haldið áfram í „Íbíza Alpanna“ eins og Ischgl er stundum kallað.

Hunsuðu ábendingar

Jyllands Posten segir ráðamenn í Tíról vísa allri gagnrýni á bug en það standist enga skoðun. 

Þremur dögum eftir að íslensk yfirvöld vöruðu við ferðum til Ischgl lýsti yfirmaður heilbrigðismála í Tíról því yfir að mjög ólíklegt væri að erlendir ferðamenn hefðu sýkst af kórónuveirunni í Ischgl.  Þegar barþjónn á vinsælum bar greindist með COVID-19 var hann sagður hafa smitast af óþekktum ferðamanni.

Lyfturnar voru enn í gangi og það var ekki fyrr en 13. mars að svæðinu var lokað og ferðamönnum sagt að fara heim. „Ábyrgðin fyrir heilsu starfsmanna og íbúa vék fyrir græðgi,“ segir í leiðara austurríska blaðsins Der Standard sem Jyllands Posten vísar til. Í sama streng er grein þýska blaðsins Der Spiegel. „Var heilsa fólks látin víkja fyrir hagnaði?“ Þar er því velt upp hvort einhverjir verði hreinlega dregnir fyrir dóm.

„Hver á að bera ábyrgð?“

Breska blaðið Financial Times fjallar einnig um viðbragðsleysi ráðamanna í Tíról við tilkynningunni frá Íslandi. Vaxandi reiði gæti nú í Þýskalandi í garð nágrannaríkisins og þar velta menn nú því fyrir sér hversu margir hafi komið sýktir til Þýskalands frá Tíról.

Financial Times hefur eftir álitsgjafanum Thomas Hofer að viðbrögðin í Tíról hafi verið mjög hæg.  Í síðustu viku hafi mátt sjá fólk skemmta sér í Ischgl eins og ekkert hefði í skorist. „Hver ætlar að bera ábyrgð á þessu?“ spurði Claudia Gamon, þingmaður á austurríska á þinginu.

Smitaði Austurríki alla Evrópu?

Á vef Ekstra blaðsins kemur fram að Danir hafi jafnvel einnig sofið á verðinum. Það hafi ekki verið fyrr en fjórum dögum eftir að Ísland setti svæðið á lista yfir hááhættusvæði að Dönum var ráðið frá því að ferðast þangað.  Þá hafði fjöldi þeirra snúið aftur heim úr skíðaferðum sínum, margir hverjir sýktir en algjörlega grunlausir.  

Sumum var jafnvel sagt að hafa engar áhyggjur þótt þeir væru með dæmigerð einkenni;  þeir væru pottþétt ekki með COVID-19 sjúkdóminn. Á vef BT er Ishcgl kallað austurríska kórónubomban. „Svona smitaði Austurríki alla Evrópu.“ 

Austurrísk yfirvöld hafa gripið til mjög harðra aðgerða til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar - þar ríkir nánast algjört bann við mannamótum. Í Tíról er hálfgert útgöngubann og þeir ferðamenn sem eftir eru fá matinn sendan upp á herbergi til sín. Tveir sænskar skíðaáhugakonur segja í samtali við Aftonbladet að þrátt fyrir þetta ætli þær að snúa aftur á næsta ári.  „Þetta mun ekki stoppa okkur.“