Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Landspítalinn fékk 15 öndunarvélar að gjöf

20.03.2020 - 16:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Velunnarar Landspítalans færðu honum 15 hátækniöndunarvélar að gjöf í dag. Gjöfin barst frá Bandaríkjunum.

Vélarnar kosta um þrjár milljónir stykkið og er verðmæti þeirra samanlagt því á fimmta tug milljóna. Fyrir voru til 26 öndunarvélar á spítalanum. 

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður Páls Matthíassonar forstjóra Landspítalans, segir vélarnar mikla búbót fyrir sjúkrahúsið.

Gefandinn kýs nafnleynd, en samkvæmt heimildum er um að ræða hóp fólks með tengsl við Ísland.

Öndunarvélar hafa reynst gríðarlega mikilvægar í meðferð þeirra sem veikst hafa alvarlega af kórónuveirunni. Hingað til hefur þó enginn sem sýkst hefur hér á landi þurft á öndunarvél að halda. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV