Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þegar nektardansinn dunaði á Akureyri

Mynd: RÚV / RÚV

Þegar nektardansinn dunaði á Akureyri

15.03.2020 - 09:05

Höfundar

„Þetta sýnir okkur hvað normin í samfélaginu geta hreyfst hratt til," segir Andrea Hjálmsdóttir félagsfræðingur við Háskólann á Akureyri þegar hún rifjar upp þá tíma þegar nektardansstaðir spruttu upp hér á landi eins og gorkúlur.

Þrír staðir á Akureyri

Á tímabili, í kringum aldamótin, voru starfræktir þrír nektardansstaðir á Akureyri, sem var á þessum tíma um 15.000 manna bær. Landinn rifjaði upp þetta furðulega tímabil. 

„Þetta kemur bara á fullri ferð inn í almannarýmið," segir Andrea. Í Dagskránni, auglýsingablaði sem dreift er inn á öll heimili á Akureyri, þótti til dæmis jafn eðlilegt að auglýsa nektardans eins og körfuboltaleik. „En það sem er líka áhugavert eru þessi borgaralegu viðbrögð. Það verður ansi mikil andstaða."

Svartur blettur á sögu bæjarins

Þorsteinn Pétursson, fyrrverandi lögreglumaður, starfaði hjá sýslumanninum á þessum tíma við að hafa eftirlit með vínveitingastöðum. Hann segir að sér hafi alltaf þótt erfitt að fara inn á nektarstaðina og horfa upp á stúlkurnar sem þar unnu.

„Einhvernveginn skynjaði ég það að þessar stúlkur sem seldu líkama sinn svona, þær væru ekki frjálsar að því," segir Þorsteinn. Hann segir þetta tímabil í sögu bæjarins, þegar hægt var að kaupa sér einkadans jafnt á Ráðhústorginu sem í verslanamiðstöðinni Sunnuhlíð alveg mega falla í gleymsku. „Þetta er svartur blettur á okkar góða bæjarlífi að þetta skuli hafa þrifist hérna."