Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Larsson kom lögreglu á Suðurafríkuslóðina

01.03.2020 - 09:03
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Saksóknari í Svíþjóð segist vita hver myrti forsætisráðherra Svíþjóðar Olof Palme í miðborg Stokkhólms 28. febrúar 1986 og boðar ákæru á næstu vikum. Talið er að glæpasagnahöfundurinn Stieg Larsson, sem rannsakaði morðið í tæp tuttugu ár, hafi komið lögreglu á slóðina, Suðurafríkuslóðina eins og Larsson kallaði hana. Larsson lagði drög að kenningunni þremur vikum eftir morðið. Útsendarar leyniþjónustu Suður-Afríku segjast hafa gert skítverk ríkisstjórnar sinnar en hafna aðild að morðinu á Palme.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Bíósýningin hófst kl. 21:15 á föstudagskvöldinu örlagaríka í kvikmyndahúsinu Grand í Stokkhólmi.

Sjónarvottar gáfu flestir mjög óljósa lýsingu af morðingjanum sem stönguðust stundum á hver við aðra. Það eina sem hönd á festir, morðinginn er hvítur karl á fertugsaldri, meðalmaður á flesta vegu, með derhúfu og í dökkum frakka. Hann skaut Olof Palme til bana og hljóp síðan upp tröppurnar við Tunnelgatan, og þar verður slóðin köld.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Íbúar Stokkhólms lögðu rauðar rósir á morðvettvanginn og eftir nokkra daga var stór rósaveggur risinn.

Þetta er það sem kalla má staðreyndir í málinu og lögreglurannsóknin hefur ekki fjölgað þeim mikið, eftir 34 ár og viðtöl við meira en tíu þúsund manns. En það er ekki skortur á kenningum og sumar þeirra eru lífseigar samsæriskenningar um að sænska lögreglan hafi átt hlut að máli, Verkamannaflokkurinn PKK eða nýnasistar sem vildu Palme feigan vegna stjórnmálaskoðana hans.

Tveimur árum eftir morðið var Christer Petterson svo handtekinn, en hann var ógæfumaður og góðkunningi lögreglunnar. Hann fékk lífstíðardóm, aðallega vegna sakbendingar Lísbetar ekkju Palme en lögregla hafði sagt henni að morðinginn væri mikill drykkjumaður. Petterson var stillt upp við hlið nokkura ungra lögreglumanna og Lísbet benti á Petterson sem var síðan sýknaður í yfirrétti, aðallega vegna þessarar meingölluðu sakbendingar. Petterson sagðist alltaf sjálfur hafa dáð forsætisráðherrann og því var aldrei ljóst hvers vegna hann hefði átt að ráða Palme af dögum. Og þessarar spurningar hefur verið spurt síðan, hver eða hverjir höfðu hag af því að losa sig við Olof Palme. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Christer Petterson fékk lífstíðardóm, aðallega vegna sakbendingar Lísbetar ekkju Palme.

Hans Holmer sem fór fyrir rannsókninni á níunda áratugnum var vinur Palme og ætlaði sér að leysa málið strax. Hann byrjaði á PKK-sporinu og vék varla af því, þar til Christer Petterson tók alla athyglina og mótaði lengi vel öll störf lögreglunnar, en Vera Illugadóttir fjallaði um morðið og rannsóknina og hvert klúðrið á fætur öðru í tveimur þáttum af Í ljósi sögunnar, þegar þrjátíu ár voru frá morðinu. En síðan hefur rofað til í rannsókninni.

epa05179655 (FILE) A file picture taken 31 March 1986 shows Hans Holmer, former head of the investigation of the assassination of Olof Palme, displaying two Smith & Wesson 357 Magnum revolvers, during a press conference in Stockhol, Sweden. Former
 Mynd: EPA - TT NEWS AGENCY
Hans Holmer heldur á tveimur skammbyssum á blaðamannafundi í mars 1986. Morðvopnið hefur aldrei fundist en talið er líklegast að það sé Smith og Wesson skammbyssa.

Nýju sannindin hljóma svo: Morðið á Olof Palme verður leyst

  • „Það var allt svo einfalt hér áður fyrr. Plútó er pláneta. Mjólk er góð. Dísel er hreinna en bensín. Ef maður fer í sund strax eftir mat getur maður fengið krampa og drukknað. Morðið á Olof Palme forsætisráðherra verður aldrei leyst. En gömlum sannindum er æ oftar snúið á hvolf og nú er aftur komið að því. Nýju sannindin hljóma svo: Morðið á Olof Palme verður leyst.“

Á þessum orðum hefst bókin Arfur Stiegs Larsson eftir sænska rithöfundinn Jan Stocklassa. Helga Soffía Einarsdóttir og Páll Valsson þýddu en undirtitill hennar er;  Lykillinn að morðinu á Olof Palme. Stocklassa komst yfir gagnasafn glæpasagnahöfundarins Steigs Larsson, sem rannsakaði morðið frá því í febrúar 1986 og nánast til dauðadags árið 2004.

„Það eru einhverjir sem hafa hagnast á morðinu“

Í gagnasafninu fann hann kassa merktan Suðurafríkuslóðin en Larsson virðist hafa byggt rannsóknir sínar á því hver eða hverjir hefðu hag af því að losa sig við Olof Palme. „Það er alltaf eitthvað mótív á bakvið svona glæp. Það er ekki tilviljun. Það eru einhverjir sem hafa hagnast á morðinu á Olof Palme. Og hverjir högnuðust á því og högnuðust einhverjir á því sem ef til vill hefðu getað framkvæmt þetta? Og í stuttu máli er kenning Stieg Larsons sú að Suðurafríska leyniþjónustan, (...) Suður Afríka þar var apartheid-stjórn, það var viðskiptabann og Olof Palme var í forsvari nefndar sem ætlaði að herða þetta til mikilla muna, meðal annars taka hart á vopnasölum til Suður-Afríku þannig að Suðurafríska ríkisstjórnin hafði litlar mætur á Palme og óttaðist hann og kenningin er sú að þeir hafi, með blessun CIA og nokkru leyti gengið í þeirra smiðju, farið í bandalag við öfgahægrimenn í Svíþjóð og útfært þetta morð,“ segir Páll Valsson.

Mynd með færslu
 Mynd: SL - boomsbeat
Stieg Larsson varði stórum hluta ævinnar í að rannsaka Palme-morðið.

Larsson vakti heimsathygli með Millenium-þríleiknum. Hann var 31. árs árið sem Palme var myrtur og vann hjá TT-fréttasamsteypunni í Stokkhólmi sem grafískur hönnuður. Morðgátan vakti athygli hans eins og annarra Svía en hann hafði um nokkurt skeið kortlagt samtök öfgahægrimanna og nasista í Svíþjóð en þar grasseraði mikið Palme-hatur. 

Larsson með kenningu 3 vikum eftir morðið

Strax í janúar 1987, tæpu ári eftir morðið, sendi Larsson lögreglu þrjátíu síðna minnisblað um sænska njósnarann Bertil Wedin sem hefði tekið þátt í skipulagningu tilræðisins. Larsson komst í gögn um Wedin í gegnum sambönd breska akvítistans Gerry Gable hjá bresku leyniþjónustunni. Gable ritstýrði Searchlight, blaði sem fjallaði um uppgang öfgamanna í Evrópu. Árið 1983, þremur árum áður en Palme var myrtur, gerðist Larsson nokkurs konar fréttarritari Searchlight í Skandinavíu og skrifaði þar greinar um Palme-morðið og uppgang öfgamanna samhliða öðrum störfum. Þeir Gable þekktust því ágætlega en lögregla gerði lítið með upplýsingarnar um Bertil Wedin, og hans hlut, en hann hafði unnið fyrir leyniþjónustu Suður-Afríku. Larsson skrifaði þetta minnisblað, aðeins þremur vikum eftir morðið á Palme: 

  • Í þessum vangaveltum er líka sá möguleiki að suðurafrískir hagsmunir komi við sögu í morðinu. Palme-nefndin, þar sem Palme sjálfur var mikilvæg persóna, hafði hleypt af stað áróðursherferð gegn þeim vopnasölum sem áttu viðskipti við apartheid stjórnina. 

Stieg Larsson hélt rannsóknum áfram en tíu árum síðar, að morgni föstudagsins 27. september 1996 fékk hann símtal, Gerry var hinum enda línunnar. 

  • Gerry: Jæja, þá er Þyrnirós vöknuð af tíu ára svefninum. Suðurafríkumennirnir eru farnir að benda hver á annan. 
  • Stieg: Benda hver á annan, fyrir hvað? 
  • Gerry: Að sögn Eugene de Kock og Peters Casselton var Palme-morðið skipulagt af Craig Williamson, með aðstoð Bertils Wedin. Nákvæmlega eins og við héldum fyrir tíu árum. Grafðu upp skjölin þín frá þeim tíma og farðu að skrifa. 

Nú fór Stieg Larsson á fullt. Gat verið að lausnin á Palme-morðinu lægi í minnisblöðum sem hann hafði skrifað fyrir áratug og upplýsingum sem hann hefði sent til lögreglunnar?

Police clash with protesters outside the U.N. refugee agency's offices in Cape Town, South Africa Wednesday, Oct. 30, 2019. Police used water cannons while dispersing and arresting scores of foreigners who have camped outside the offices for weeks seeking relocation outside South Africa after a wave of attacks on foreigners in cities earlier this year. (AP Photo)
 Mynd: AP

Lítum á nafnasúpuna í samtali þeirra Gerrys og Larssons. Bertil Wedin er sænski njósnarinn sem vann meðal annars fyrir leyniþjónustur Bretlands, Bandaríkjanna og Suður-Afríku. Craig Williamson var vestur-þýskur ríkisborgari og njósnaði meðal annars fyrir leyniþjónustu Suður-Afríku. Hinir tveir Casselton og de Kock, voru leiguliðar sem höfðu unnið fyrir suðurafrísk yfirvöld. En Larsson var hissa, hvers vegna voru þeir að benda hver á annan?

Útsendarar reyndu allt til að bjarga eigin skinni

1996 var apartheid-stjórnin í Suður-Afríku fallin og Nelson Mandela hafði verið forseti í tvö ár. Sannleiksnefnd var nýtekin til starfa til að varpa ljósi á glæpi apartheid-tímans og eftir að farið var að veita sakaruppgjöf kepptust útsendarar frá leyniþjónustunni við að varpa ábyrgð hver á annan til að bjarga eigin skinni. Við höfum áður fjallað um apartheid-tímann í Heimskviðum og áhrif hans á suðurafrískt samfélag. Þar á ofbeldismenning djúpar rætur og ofbeldi þykir sjálfsagt enn í dag, hvað þá á níunda áratugnum þegar apartheid-stjórnin var við völd. 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia - Hvíta húsið
Árið 1985 áttu Bandaríkin, Íran og Suður-Afríka í miklum vopnaviðskiptum sem sænska vopnaeftirlitsstofnunin stöðvaði.

Samsæriskenning eða Stieg að fylla í eyður?

En kenning Stiegs Larsson teygir sig víðar, og hér er nú líklegt að glæpasafnahöfundurinn hafi sjálfur fyllt í nokkrar eyður. Um miðjan níunda áratuginn voru einna mestu stríðsátökin í heiminum annars vegar milli Írana og Íraka og hins vegar stjórnarhers Níkaragva og Contra-sveitanna sem Bandaríkin studdu. Bandaríska leyniþjónustan seldi ólögleg vopn til Írana til að fjármagna Contra-sveitirnar í Nígaragva. Þetta var gert framhjá bæði þingi og þjóð og fór nærri því að kosta Ronald Reagan Bandaríkjaforseta, forsetastólinn.

Ákvörðun um að myrða Palme tekin í sumarlok 1985

Árið 1985 áttu Bandaríkin, Íran og Suður-Afríka í miklum vopnaviðskiptum sem sænska vopnaeftirlitsstofnunin stöðvaði og því sátu ríkin þrjú saman í súpunni. Eftir sigur sósíaldemókrata í þingkosningunum í Svíþjóð árið 1985 var ljóst að Olof Palme yrði áfram við völd og myndi gera sitt til að stöðva þessi viðskipti, reyna að koma apartheid-stjórninni frá völdum og jafnvel koma upp um Íran-Contra-hneykslið. Samkvæmt Larsson var endanleg ákvörðun um að myrða Palme tekin í sumarlok 1985. En til þess þurfti flókna fléttu og Craig Williamson þótti bestur til að hrinda henni í framkvæmd.

Mynd með færslu
 Mynd: Af twittersíðu Stocklassa
Jan Stocklassa hefur rannsakað málið í níu ár, eða allt frá því hann komst yfir gagnasafn Larssons.

Blóraböggull og góða flétta til að fela slóðina

Stocklassa segir að Suðurafríkumenn hafi á þessum tíma notað svipaðar aðferðir, fundið blóraböggul sem framkvæmdi morðið og góða fléttu til að fela slóðina. Bertil Wedin gegndi lykilhlutverki í því en þremur mánuðum fyrir morðið á Palme flutti hann til Kýpur, sem er alræmdur áfangastaður þeirra sem vilja forðast framsal til annarra ríkja. Stocklassa komst yfir vegabréfsupplýsingar Wedins og rekur ferðir hans árin fyrir morðið. Hann fór fram og aftur milli Stokkhólms, Lundúna og Jóhannesarborgar en hefur sjálfur alltaf neitað sök. 

Talið að Jacob Thedelin hafi flúið land

Blóraböggullinn í fléttunni, sá sem framdi morðið er kallaður Jakob Thedelin í bókinni, en það er dulnefni til að verja hann fyrir árásum og ofsóknum. Hann bjó lengst af í Svíþjóð en er núna flúinn land. Í bókinni átti að vera mynd af Jakobi Thedelin úr eftirlitsmyndavélum í Stokkhólmi frá því í nóvember 1986 en lögregla setti lögbann á birtingu myndarinnar og því er svört síða í bók Stocklassa. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Jacob Thedelin bjó lengst af í Svíþjóð en er núna flúinn land. Það var mynd af honum í bók Stocklassa en hún var fjarlægð að beiðni Palme-hópsins.

Ég framkvæmdi skítverk ríkisstjórnar minnar

Jan Stocklassa hefur rannsakað málið í níu ár, eða allt frá því hann komst yfir gagnasafn Larssons. Hann fór til Jóhannesarborgar í Suður-Afríku í desember 2015 og ræddi við Craig Williamson, njósnarann sem bæði Stieg og Stocklassa telja að hafi skipulagt morðið. 

  • „Ég framkvæmdi skítverk ríkisstjórnar minnar og ríkisstjórn mín sá um skítverkin fyrir ríkisstjórnir Vesturlanda. Ég hef verið ásakaður um margt. Sagt er að ég hafi staðið á bak við morðið á Olof Palme, brotlendingu flugvélar Samoras Machel og Lockerbie-tilræðið. Allt er þetta vitleysa. Ég kom hvergi að morðinu á Olof Palme.“ 

Skafti og Skafti í Suður-Afríku

Tveir lögreglumenn úr Palme-hóp Stokkhólmslögreglunnar fóru til Suður-Afríku árið 1997 og reyndu að fylgja slóð Larssons en án árangurs. Í bók Stocklassa nefnist sá kafli Skafti og Skafti í Suður-Afríku, og segir það ýmislegt um árangurinn. Flestir innan lögreglunnar voru enn með það á bak við eyrað að morðinginn væri þegar fundinn. Það var í raun ekki fyrr en mörgum árum seinna að lögreglan opnaði á það fyrir alvöru að morðinginn héti eitthvað annað en Christer Petterson, og sá sem það gerði var Krister Petterson - nýr saksóknari sem tók við málinu árið 2017 en sá var alnafni þess sem hafði verið dæmdur fyrir morðið. 

Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Pettersson segist vita hver framdi morðið og að ákæra verði birt á fyrri helmingi ársins.

Stutt í ákæru og bjartsýnn saksóknari

Sænskir fjölmiðlar hafa alla tíð fjallað mikið um morðið og það hefur verið aðalumfjöllunarefni síðustu tveggja þátta af Glæpum vikunnar, Veckans brott, í sænska ríkissjónvarpinu. Petterson var gestur þáttarins í síðustu viku og Hans Melander, sem nú stýrir rannsókninni, á þriðjudagskvöldið. Pettersson var gestur Camillu Kvartoft og sagðist vita hver framdi morðið og að ákæra verði birt á næstu vikum eða mánuðum. 

Scandia-maðurinn eða Suðurafríkuslóðin?

Hans Melander staðfesti svo á þriðjudaginn að rannsókninni væri að ljúka og rannsakendum væri að takast ætlunarverkið, en það er í fyrsta sinn sem þeir sem stýra Palme-hópnum svokallaða segja eitthvað á þessa leið. Þeir virtust báðir mjög bjartsýnir en gáfu ekkert upp um hvaða stefnu rannsóknin hefði tekið. Sænskir fjölmiðlar segja tvennt koma til greina. Annars vegar að Scandia-maðurinn Stig Engström hafi myrt Palme, en hann var á morðvettvangi og gaf skrítnar og misvísandi upplýsingar um ástæður þess en Hans Holmer og hans menn nánast hunsuðu. Hann er nú látinn en hann vann hjá Skandia-tryggingafyrirtækinu, en skrifstofur þess eru skammt frá þeim stað þar sem morðið var framið. Og hins vegar Suðurafríkuslóð Larssons og Stocklassa. Enn er óljóst á hvaða slóð sænska lögreglan er en þar kemur einkum tvennt til greina. Annars vegar Scandia-maðurinn svokallaði, sem var á morðvettvangi og gaf einkennilega og síbreytilega vitnisburði um ástæður þess en Hans Holmen og hans menn ýttu því öllu til hliðar, og hins vegar Suðurafríkuslóð Steigs Larsson og Jan Stocklassa.

Byssan í öryggishólfi í Stokkhólmi

Þessi mikla og skyndilega bjartsýni rannsakenda gefur til kynna að þeir hafi raunveruleg sönnunargögn undir höndum, sem hefur verið mikill skortur á í þessari rannsókn og Páll Valsson segir að án morðvopnsins verði erfitt að skera úr um það hver myrti Olof Palme. „Ég veit að sá maður sem Stocklassa telur að hafi myrt Olof Palme hann er flúinn land og hann er farinn í felur og ég veit að lögreglan tók öll þessi gögn og taldi þau mjög athyglisverð og er að vinna úr þeim en hins vegar er þessi rannsókn og saga hennar svo mögnuð að sumir segja að það verður aldrei hægt að dæma neinn fyrir morðið á Olof Palme nema morðvopnið finnist. Og Stocklassa telur að það sé ennþá til staðar, hann er með þá kenningu að það sé í öryggishólfi í Stokkhólmi, en við verðum bara að sjá hvað setur,“ segir Páll. 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV