Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vatnsskortur farinn að segja til sín

Mynd með færslu
Á Melrakkasléttu.  Mynd: Ágústa Ágústsdóttir - RÚV
Ágústa Ágústsdóttir og Kristinn B. Steinarsson búa á bænum Reistarnesi á vestanverðri Melrakkasléttu. Þau eru með 550 fjár. Þar hefur verið rafmagnslaust síðan í fyrradag. Vatnsskortur er yfirvofandi á svæðinu ef ekki kemst að koma rafmagni á vatnsdælurnar.

Reyna að koma vatnsdælum í gang

Ágústa segir enga vatnsveitu hjá þeim heldur eru vatnstankar uppi í fjalli. Dæluhús er fyrir neðan og dælurnar drifnar áfram með rafmagni. Dælurnar eru úti vegna rafmagnsleysisins.

Þau ætla að reyna að koma dælunum í gang í dag, enda er vatnsskorturinn farinn að segja til sín. Það þarf að brynna fénu og þurfa sjálf neysluvatn. „Erum bara að bíða eftir einangrunarull sem er að koma með bíl í dag til að einangra dælurnar sem eru í dæluhúsinu svo þær frjósi ekki. Svo ætlar maðurinn minn að tengja rafstöð við dælurnar,“ segir Ágústa. 

Muna ekki eftir svona ástandi

Hún segir að maðurinn hennar, sem er fæddur og uppalinn á svæðinu, muni ekki eftir svona svakalegu ástandi. Rafmagnsstaurarnir eru eins og bananar í laginu og rafmagnslínurnar slitnuðu eins og fiðlustrengir undan veðrinu. Þau hafa fengið fréttir af því innan úr Öxarfirði og af Sléttu að annaðhvort hafi staurarnir lagst undan þunganum eða brotnað. 

Ágústa segir einnig mikið af girðingum hafa eyðilagst í veðurofsanum og segir það mikið tjón. 

Hér má heyra viðtal við Ágústu í Síðdegistúvarpi Rásar 2

Búa sig undir langvarandi rafmagnsleysi 

Ágústa segir að fólk á þessu svæði sé vant rafmagnsleysi á veturnar. Hún segir það vanalegt á hverjum vetri að einhversstaðar brotni eitthvað og bili, af því þarna liggja rafmagnslínur ennþá ofanjarðar á staurum. En yfirleitt stendur rafmagnsleysið þó stutt yfir, aðeins í einn til tvo daga. 

Ágústa segir að þau fylgist vel með hvernig gengur að gera við raforkukerfið. Hún segist þó gera sér grein fyrir að þetta svæði er neðarlega á forgangslista. „Við erum alveg búin að búa okkur undir viku, hálfan mánuð í rafmagnsleysi. Sem vonandi verður samt ekki en við gerum ráð fyrir því þangað til annað kemur í ljós.“