„Neytendur vilja vöru beint frá býli“

Mynd með færslu
 Mynd: Vörusmiðjan Biopol - RÚV

„Neytendur vilja vöru beint frá býli“

20.11.2019 - 08:44

Höfundar

Á Skagaströnd er starfrækt vottað vinnslurými fyrir smáframleiðendur sem kallast Vörusmiðjan. Þar geta smáframleiðendur leigt vottaða aðstöðu þar sem hægt er að þróa og framleiða matvöru og snyrtivöru. Rás 2 brá sér í heimsókn og forvitnaðist um starfsemina.

Starfsemin vaxið og dafnað

Þórhildur M. Jónsdóttir tekur á móti okkur. Hún er verkefnastjóri Vörusmiðjunnar og aðstoðar framleiðendur sem koma og nýta sér aðstöðuna. Hún er matreiðslumeistari og hefur óbilandi áhuga á mat, sem hún segir ákaflega mikilvægt í starfi sem þessu. Þegar nýir framleiðendur koma inn í starfsemina hjálpar Þórhildur þeim að sækja um öll nauðsynleg leyfi og er þeim til halds og traust við að þróa vöru sína.

Starfsemi Vörusmiðjunnar hófst fyrir þremur árum og hefur vaxið mikið síðan. Margir framleiðendur hafa bæst í hópinn og flestir þeirra eru bændur með kjötframleiðslu. Einnig eru framleiddar vörur úr fiskafurðum og grænmeti. Þórhildur segir virkilega gaman að fylgjast með öllum þeim nýju vörum sem hafa orðið til á staðnum og líka hvað framleiðendum hefur fjölgað. 

„Núna eru átta framleiðendur sem framleiða hérna allt árið. Þetta er mestmegnis af Norðurlandi vestra. Í upphafi voru flestir framleiðendur úr Skagafirði, en það hefur orðið breyting á og fólk bæst í hópinn úr Austur- og Vestur-Húnavatnssýslu,“ segir Þórhildur.

Hún segist einnig skynja aukinn áhuga neytenda á vörum sem framleiddar eru á þennan hátt. „Við höfum orðið vör við að neytendur vilja vöru beint frá býli, vilja vita upprunann og þekkja bóndann.“ 

Þórhildur segir að starfsemi sem þessi sé gríðarlega mikilvæg fyrir svæðið. „Ég held ég geti sagt að þessir átta framleiðendur sem eru hjá okkur í dag væru ekki í framleiðslu nema af því þetta rými er í boði, því það kostar heilmikið að byggja upp svona vottað vinnslurými,“ segir Þórhildur. 

Reykt kiðlingarúllupylsa og hafra-havarti

Á meðal þeirra sem leigja aðstöðu í Vörusmiðjunni er bóndinn og handverkskonan Sigrún Helga Indriðadóttir. Hún býr ásamt fjölskyldu sinni á bænum Stórhóli í Skagafirði. Sigrún er einn af stærstu framleiðendum Vörusmiðjunnar og þegar Rás 2 spjallaði við hana var hún að búa sig undir að þróa vöru sem hún kallar hafra-havarta, sem er ostafylltur geitaborgari. 

Sigrún segir að vinnslurými Vörusmiðjunnar breyti miklu fyrir hana og geri henni kleift að gera meira úr afurðum sínum. Þegar hún byrjaði seldi hún kjötið niðursagað og pakkað beint úr sláturhúsinu. Núna nýtir hún vottað vinnslurými Vörusmiðjunnar þar sem hún getur unnið með hráefnið, hún úrbeinar sjálf og gerir tilraunir með að þróa mismunandi vörur. Eins og til dæmis hafra-havarta og reykta kiðlingarúllupylsu. 

Sigrún selur vörurnar sínar undir merki Beint frá býli og hægt er að kynna sér vörurnar hennar á vefsíðu fjölskyldunnar. En hvað ætli sé vinsælast svona fyrir jólin? „Það er þetta léttreykta og grafna. Grafið ærkjöt og svo er ég með pínulítið af grafinni geit og nú verð ég líka með kiðlingahangikjöt og tvíreykt kiðlingalæri. Ég hafði pínu smakk af því í fyrra og það varð mjög vinsælt,“ segir Sigrún. 

Gígja Hólmgeirsdóttir spjallaði við þær Þórhildi M. Jónsdóttur og Sigrúnu H. Indriðadóttur fyrir Morgun- og Síðdegisútvarpið á Rás 2. Hægt er að hlusta á viðtölin við þær í spilurunum hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Sveitarfélagið Skagaströnd

Vilja að afurðir séu fullnýttar heima í héraði

Norðurland

Sælkerabúð í Svarfaðardal

Sjávarútvegsmál

Greiða 5000 krónur fyrir merkta grásleppu

Umhverfismál

Kanna hvernig örplast berst í sjó við Ísland