Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Einlægt, óskrifað blað

Mynd með færslu
 Mynd: Ásta Kristín Pjétursdóttir - Sykurbað

Einlægt, óskrifað blað

01.11.2019 - 12:25

Höfundar

Ásta sló í gegn á liðnum Músíktilraunum þegar ástríðufullur flutningur hennar snerti mann og annan. Sykurbað er hennar fyrsta breiðskífa og er plata vikunnar á Rás 2.

Ásta kom ein fram með gítar á Músíktilraunum og beraði tilfinningalíf sitt í tónum með þeim hætti að það hrikti í salnum. Í einu laginu, titillagi þessarar plötu, beygði hún af og það augnablik mun aldrei líða mér úr minni. Túlkun, einlægni og ástríða verður bara ekki greinilegri, sönnun á hinum ótrúlega heilunarmætti tónlistar og þeim áhrifum sem hún getur haft á okkur öll.
Ég er svo glaður að Ásta hafi gefið út plötu, kýlt á það, og í spjalli við hana á dögunum varð okkur tíðrætt um fullkomnunaráráttuna, sem er helsti plagsiður Vesturlandabúans í dag. Fólk hikar, allt þarf að vera 100%, og við verðum af svo góðri list fyrir vikið. Staða kvenna að þessu leytinu til og letjunaráhrifin sem þær búa við leynt og ljóst í bransanum er þá annar pakki. En hér er plata Ástu sem betur fer komin; einlæg, hrá og sannferðug – nákvæmlega eins og hún var þegar hún spilaði fyrir okkur á dögunum. Og aftur, ég fagna því að þessi plata sé komin út.

Því að innihaldið er gott, það er nærandi, ljúft og sorglegt í senn, og snertir mann. Grunnurinn er þjóðlagatónlist, Joni Mitchell er líklega auðveldasti snertiflöturinn, Joan Baez líka. Gítarplokk og nokkuð voldug rödd sem fer vel með knýjandi stemningunni í lögunum. Minna þektari listakonur eins og Sibylle Baier og Judee Sill koma og í hugann, þessi töfrandi handanheimsstemning sem einkennir til dæmis þá fyrstnefndu.

Sykurbað er öðrum þræði uppgjörsplata, maður verður var við eldheitt samband tveggja einstaklinga þar sem mikið gekk á, eins og gengur. „Sykurbað“ fæst við þetta og „Fimmmánaðablús“ einnig. Á einum stað talar Ásta um að meðvirkni og þögnin sem henni oft fylgir sé ógeðsleg („Segulsvið“). Ásta hvíslar lagið nánast, eins og hún vilji eiginlega ekki að við heyrum það sem hún er að segja. Söngröddin, naktir textarnir og næmur flutningurinn draga mann allan inn og upplifunin er eftir því. Það er hlý og einmanaleg stemning í hljóðmyndinni, stofustemning mætti segja, sem undirstingur heildarupplifunina enn frekar. Samfellan í plötunni er góð, hugarástand Ástu og það sem hún varð að koma frá sér kemst alla leið. Stundum minnir þetta mig á sérdeilis magnaða tónleikaplötu Mark Eitzel sem leiðir sveitina American Music Club (Songs of Love) en þar er allt gjörsamlega uppi á borðum – og tárin líka.

Sykurbað er með betri plötum sem ég hef heyrt á árinu, einfaldlega vegna þeirra áhrifa sem ég hef verið að lýsa hér. Svona plötur eru bara gerðar einu sinni, og mikið sem ég er feginn að það hafi orðið af framkvæmdum.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Klingjandi indípopp

Popptónlist

Með heiminn á herðunum

Popptónlist

Blúsað og rokkað

Popptónlist

Glitrandi indípopp