2019 var næst heitasta ár frá upphafi mælinga

epa03380568 A photograph made available on 02 September 2012 showing a small plant growing through a crack of the dried bed of the Debar lake, after it dropped some 10 meters from it's normal level near the western city of Debar,The Former Yugoslav
 Mynd: EPA
Samkvæmt skýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar er áratugurinn frá 2010 til 2019 sá heitasti á jörðinni síðan mælingar hófust. Árið í fyrra mældist það næst heitasta í sögunni. Í skýrslunni segir að allt frá níunda áratugnum hafi hver áratugur verið hlýrri en sá sem á undan fór. Búist er við því að þannig verði það áfram í næstu framtíð. 

Í skýrslunni segir að árið 2020 hefjist á svipuðum nótum og árinu 2019 lauk, með áhrifamiklum veður- og loftslagsfyrirbrigðum. Petteri Taalas, yfirmaður stofnunarinnar, segir allar líkur á að áfram megi gera ráð fyrir öfgakenndu veðurfari á þessu ári og næstu áratugum. Það komi til vegna áframhaldandi útblásturs gróðurhúsalofttegunda í metmæli. Benti hann máli sínu til stuðnings á gróðureldana sem hafa farið yfir gríðarmikið svæði í Ástralíu undanfarna mánuði. Þar hafa 28 látið lífið, tugþúsundir orðið að flýja heimili sín og talið að um milljarður dýra hafi drepist.

Að sögn sérfræðinga á vegum Sameinuðu þjóðanna verður útblástur koltvísýrings af manna völdum að minnka um 7,6% á ári til ársins 2030 svo meðalhiti á jörðinni hækki ekki um meira en 1,5 stig, eins og kveðið er á um í Parísarsáttmálanum. Ef fram heldur sem horfir í útblæstri mannkyns á meðalhiti hins vegar eftir að hækka um þrjú til fimm stig miðað við meðalhita frá því mælingar hófust árið 1850.