Óbærilegur léttleiki (...) - Milan Kundera

Mynd: Wikimedia.org / Wikimedia.org

Óbærilegur léttleiki (...) - Milan Kundera

15.10.2015 - 18:33

Höfundar

Bók vikunnar að þessu sinni er Óbærilegur léttleiki tilverunnar eftir Milan Kundera í þýðingu Friðriks Rafnssonar. Bókin um ástina, kynlífið, heimspekin og pólitíkina í Evrópu á sjöunda og áttunda áratugnum sem sló í gegn tíu árum síðar og gerði höfundinn heimsfrægan.

Hér má heyra lestur úr bókinni og viðtal við þýðandann Friðrik Rafnsson en hvort tveggja var á dagskrá þáttarins Víðsjá í vikunni.

Í þættinum Bók vikunnar á rás 1, sunnudginn, 18. október ræðir Jórunn Sigurðardóttir við þau Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttir menningarfræðing og kennara við Listaháskóla Íslands og Árna Bergmann rithöfund og fyrrum blaðamann og ritstjóra um bókina.

Óbærilegur léttleiki tilverunnar kom fyrst út í Frakklandi árið 1984 og náði strax gríðarlegri athygli og vinsældum víða um lönd. Íslensk þýðing bókarinnar eftir Friðrik Rafnsson kom út tveimur árum síðar. Síðan hefur bókin verið endurútgefin fjórum sinnum hér á landi  síðast árið 2012 í röðinni erlend klassík hjá Forlaginu.

Milan Kundera er nú á níræðisaldri og bækur hans orðnar fjölmargar, skáldsögur, smásögur og ritgerðarsöfn og hafa öll verk hans komið út á íslensku og mörg þeirra meira að segja sama dag og frumútgáfan á frönsku.

Í bókinni Óbærilegur léttleiki tilverunnar fer fram mörgum sögum. Sögusviðið er Tékkólóvakía þar sem fólk um miðjan sjöunda áratuginn sá fram á bjartari og frjálsari tíma í sínu kommúníska heimalandi. Þeir draumar og þær hugsjónari voru síðan eins og kunnugt er fótum troðnar af sovéskum skriðdrekum dag einn í ágúst árið 1968, sem gerði að verkum að fjölmargir yfirgáfu heimaland sitt og fáir sneru aftur. 

Pólitík og hugsjónir fólks á síðari hluta 20. aldarinnar eru í brennidepli þeirra hugleiðinga sem Kundera gerir persónum sínum um leið og hann tengir þessar hugleiðingar ýmsum kenningum í sögu heimspekinnar, m.a. kenningum Nietzsches um eilífa endurkomu hins sama og kenningum gríska heimspekingsins Parmenidusar um léttleika og þunga, þá er hin skilyrðislaus knýjandi þörf sem manneskjunni getur þótt svo ágætt að fylgja til umfjöllunar.

Í bókinni eru fjórar persónur í forgrunni, skurðlæknirinn og kvennamaðurinn Tómas; Theresa kona hans, framreiðslustúlka og ljósmyndari um hríð; listakonan Sabine sem elskar heitt en þolir enga skilyrðingu eða skuldbindingu en Sabine er ástkona Tómasar. Þá kemur einnig nokkuð við sögu hinn svissneski Frans, harðgiftur fræðimaður sem verður ástfanginn af Sabine og er ástmaður hennar um tíma. Þá má ekki gleyma hundinum Karenín sem er mikilsverður hlekkur í sambandi hjónanna Tómas og Theresu.

Sagan er aldrei línuleg heldur er stokkið fram og aftur eftir því sem höfundur telur henta til þess m.a. að gera grein fyrir margvíslegum kenningum sínum um stjórnmál, um Vesturlönd og löndin austan járntjalds sem og um ást, kynlíf og fjölmiðla svo eitthvað sé nefnt. En kannski fjallar þessi bók mest um vald og vanmátt sem er undirrót atburðarásar lífs einstaklinga sem ævinlega verða þó að taka sínar ákvarðanir án þess að geta sannreynt fyrirfram hvort sú ákvörðun verði til góðs eður ei.

Bækur eftir Milan Kundera sem hafa komið út á íslensku eru:Óbærilegur léttleiki tilverunnar (1986); Ódauðleikinn (1990); Bókin um hlátur og gleymsku (1992); Kveðjuvalsinn (1992); Með hægð (1995); Fáfræðin (2000); Hlálegar ástir (2002); Lífið er annars staðar (2005); Brandarinn (2007) Tjöldin (ritgerð í sjö hlutum) (2006); Kynni (ritgerðir, 2009) og Hátíð merkingarleysunnar (2014)

 

 

Mynd:  / RÚV