Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

2007 komið aftur?

15.11.2011 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Það er alls ekki kreppubragur yfir öllu á Íslandi. Lúxusbílar eru farnir að seljast á ný og bankarnir auglýsa húsnæðislán sem aldrei fyrr. Andinn sem ríkti á Íslandi fyrir hrun er kannski ekki svo langt undan. Loka þurfti nýrri verslun í Smáralind í gær því þar seldist allt upp á þremur dögum.

Þó enn sé mótmælt á Austurvelli og fjárhagur heimilanna sé bágur er ekki kreppubragur á öllu á Íslandi. Og sumir virðast hafa nóg á milli handanna. Fréttir herma að sala á  lúxusbílum sé farin að taka við sér. Í fyrra seldust bara fjórir Lexusbílar en það sem af er þessu ári hafa 22 stykki selst. 

Menn eru í framkvæmdahug. Á föstudaginn var opnuð ný líkamsræktarstöð Í Holtagörðum sem ku vera með þeim stærri á landinu. Sama dag var opnaður skemmtigarður í Smáralind. Á Mmeðan fólk fjölmennti í skemmtigarðinn þurfti að hleypa inn í hollum í tískuvöruverslunina Lindex. Nú er búið að skella í lás í bili. Búðin var nefnilega tæmd, það seldist gjörsamlega allt. 

Það eru ekki bara föt sem seljast. Uppselt er á flesta jólatónleika og samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins munu Íslendingar verja um 350 milljónum króna í slíka skemmtun fyrir jólin. Já, og svo eru það bankarnir. Þeir auglýsa nú húsnæðislán sem aldrei fyrr og standa fyrir viðburðum fyrir börn. 

Það er dálítið eins og 2007 sé bara komið aftur, sem er kannski ekki svo slæmt svo lengi sem árið 2008 kemur ekki í kjölfarið.