Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

20.000 mótmæltu ríkisstjórn Georgíu

18.11.2019 - 03:22
epa08003635 Georgian opposition supporters take part in a protest rally in front of the parliament building in Tbilisi, Georgia, 17 November 2019. Georgian opposition demands extraordinary parliamentary elections in Georgia.  EPA-EFE/ZURAB KURTSIKIDZE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Um 20.000 manns söfnuðust saman í miðborg Tíblisi, höfuðborgar Georgíu, á sunnudag, til að mótmæla ríkisstjórn landsins og krefjast þingkosninga hið fyrsta. Efnt var til mótmælanna í kjölfar þess að þingið felldi frumvarp um breytt kosningafyrirkomulag, sem mælir fyrir um að allir þingmenn skuli kosnir hlutfallskosningu. Samkvæmt núgildandi lögum er nær helmingur þingmanna kosinn í einmenningskjördæmum en hinn helmingurinn af framboðslistum flokka í stærri kjördæmum, líkt og hér á landi.

Til að breyta kosningalögunum þarf að breyta stjórnarskránni og vantaði tólf atkvæði upp á að nægilegur meirihluti fengist fyrir því. Þetta skýrist einkum af því að þónokkrir þingmenn Georgíska draumsins, flokksins sem heldur um stjórnartaumana í landinu, höfnuðu breytingunni. Mótmælendur eru á því að það megi fyrst og fremst rekja til ótta þessara sömu þingmanna um að missa þingsæti sín - en þeir eiga það allir sameiginlegt að hafa verið kosnir í einmenningskjördæmum.

Stefnt var að því að breyta kosningalögunum árið 2024 en stjórnarandstaðan krafðist þess að breytingin tæki gildi fyrir næstu þingkosningar, sem eiga að fara fram í október á næsta ári. Halda þeir því fram að núverandi kerfi hygli Georgíska draumnum umfram aðra flokka, en hann hefur verið við stjórnvölinn í landinu síðan 2012. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV