2.000 slys í skólum ár hvert

22.02.2020 - 21:02
Mynd með færslu
Íslenskutími hjá 8. bekk í Hrafnagilsskóla Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Um fimm þúsund vinnuslys verða hér á landi árlega og um tvö þúsund slys í skólum. Sérfræðingur í forvörnum segir mikilvægt að fá heildaryfirsýn yfir slysin til að reyna að fyrirbyggja þau.

Embætti landlæknis heldur utan um slysaskrá, sem er miðlægur gagnabanki, en hlutverk hennar er að samræma skráningu slysa og veita yfirlit yfir fjölda, orsakir þeirra og afleiðingar, þannig að unnt sé að hafa áhrif á þá þætti.

„Að meðaltali eru um 5.000 vinnuslys á ári hérna á Íslandi. Og ef við brjótum það niður á dag, þá er núna klukkan sirka þrjú, þá eru kannski sex vinnuslys búin að eiga sér stað nú þegar,“ segir Gísli Nils Einarsson, sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS. „Þessi skráning byggir á slysum þar sem að viðkomandi er búinn að leita inn á heilbrigðisstofnun, eða slysið hefur verið tilkynnt til tryggingafélags eða Vinnueftirlitsins.“

Gísli Nils segir hvert slys einu of mikið, en miðað við fámennið hér sé þetta há tala. Hann segir eina tegund slysa skera sig úr. „Rannsóknir, bæði erlendis og hérna heima, þegar er verið að rýna í slysatölur sýna það að fallslys, þar sem þú annaðhvort ert að detta á jafnsléttu eða hnjóta um hlut á jafnsléttu eða að falla úr hæð, þetta eru sirka svona 30-40 prósent allra slysa.“

Þá segir hann að um það bil tvö þúsund slys verði árlega í skólum og þar séu fallslys einnig algengust. Forritinu Atvik var hleypt af stokkunum árið 2013. Þar er hægt að skrá slys í flokka eftir eðli og alvarleika og einnig þætti eins og einelti og kynferðislega áreitni.

Gísli segir að í forvarnarskyni sé mikilvægt að fá heildaryfirsýn innan fyrirtækis eða stofnunar svo hægt sé að greina vandann. „Og þá er til dæmis hægt að fara í að þjálfa starfsmenn, vera með fræðslu eða gera sérúttektir á vinnusvæðinu, breyta verkferlum og jafnvel finna leiðir til að koma í veg fyrr endurtekin atvik.“

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV