Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

2.000 í norðurljósaferðum í kvöld

01.01.2014 - 22:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Tugum rúta hefur verið keyrt út úr Reykjavík í kvöld, flytjandi erlenda ferðamenn sem ætla sér að sjá norðurljósin í öllu sínu veldi. Hjörtur Þór Unnarsson, vaktstjóri hjá Allrahanda, telur að alls hafi um 2.000 manns farið út úr bænum að skoða norðurljósin í kvöld.

Hjörtur Þór segir að nær 840 ferðamenn hafi farið með rútum félagsins í norðurljósaferðir í kvöld. „Þetta er langstærsta kvöldið. Við fórum með tæplega 730 ferðamenn 30. desember, þannig að þetta er aukning um rúmlega hundrað manns,“ segir hann. „Það er alveg ljóst að þessi fjöldi ferðamanna sem er á Íslandi er að miklu leyti kominn til að sjá Norðurljósin, þau trekkja mjög að.“

Hjörtur segir að aðstæður til að skoða norðurljósin hafi verið mjög góðar og ferðamenn því afar ánægðir. Þær upplýsingar fengust hjá Kynnisferðum að um 800 manns hefðu farið í norðurljósaferðir hjá félaginu. Hjörtur telur að þeir séu enn fleiri þegar allt er talið með. „Miðað við það sem er hjá okkur og þá fjölmörgu aðila sem eru í þessum bissness er ég sannfærður um að það eru í kringum tvö þúsund manns sem eru í kvöld að horfa á norðurljósin.“

[email protected]