Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

2000 athugasemdir frá grunnskólabörnum á Akureyri

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Bæjarstjórinn á Akureyri fékki í dag afhentan þykkan bunka af blöðum með um 2000 óskum og hugmyndum grunnskólabarna um það sem betur mætti fara í bænum. Unga fólkið hefur verið áberandi á Akureyri síðustu daga, en í dag á alþjóðadegi barnsins lauk viku barnsins á Akureyri.

Ungmennaráð Akureyrarbæjar mætti á fund með bæjarstjóranum í dag til að afhenda þessi sterku skilaboð frá nemendum í grunnskólum á Akureyri. Akureyrarbær stóð fyrir viku barnsins sem náði einmitt hámarki í dag. Bæjarfulltrúar hafa fundað með börnum þar sem þau hafa komið sínum hagsmunamálum á framfæri og ýmislegt verið gert til að vekja athygli á málefnum og réttindum barna.

Ungmennaráð orðið virkara í stjórnkerfi bæjarins

Embla Blöndal, fulltrúi í ungmennaráðinu, segir að talsverða baráttu hafi þurft til að koma málefnum þess á dagskrá hjá bæjaryfirvöldum. En vinnan hafi skilað árangri og ráðið sé ekki lengur þessi táknræna þátttaka í bæjarmálunum. „Við erum farin af fá ábyrgð og farin að verða virkari. Og í stað þess að fá verkefni inn á borðið eftir að búið er að taka ákvarðanir, þá koma þau til okkar áður og við fáum eitthvað að segja um þau,“ segir hún. 

Voru mjög áberandi í umræðunni um snjómokstur

Og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, segir ungmennaráðið mjög áberandi í starfi bæjarins og það sé tekið tillit til þeirra athugasemda. „Það má nú til dæmis nefna að þau hafa komið rækilega inn í umræðuna um snjómokstur og verið tekið tillit til þeirra athugasemda. Og þau hafa látið mjög til sín taka og eru mjög dugleg og ötul við það að sinna sínum verkefnum.“

Akureyri fyrsta barnvæna sveitarfélagið

Akureyrarbær varð fyrsta íslenska sveitarfélagið til að hefja innleiðingu á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þar með fyrsta barnvæna sveitarfélag UNICEF hér á landi. Ásthildur segir þá innleiðingu á lokastigi. „Við förum að fá úttekt á stöðunni hjá okkur, þannig að þessu fer að ljúka. Það er búin að vera mikil vinna hjá öllum sviðum bæjarins og snertir þau öll með einum eða öðrum hætti.“