200 ný hjúkrunarrými á næstu tveimur árum

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Hjúkrunarrýmum fjölgar um tæplega 200 innan tveggja ára með nýjum hjúkrunarheimilum í Hafnarfirði, á Seltjarnarnesi, í Árborg og við Sléttuveg í Reykjavík. Hjúkrunarheimilin í Hafnarfirði og á Seltjarnarnesi verða opnuð strax á nýju ári. 

Fjöldi hjúkrunarrýma á landinu öllu er um 2.700, samkvæmt skýrslu um stöðu áætlunar stjórnvalda um byggingu hjúkrunarrýma sem kynnt var í vor. Þar kemur fram að 270 hjúkrunarrými vanti til viðbótar við þau rými sem þegar hefur verið ákveðið að byggja. Þá þurfi að bæta eða endurbyggja allt að 400 hjúkrunarrými til þess að mæta kröfum um bættan aðbúnað. 

Meðalbiðtími eftir hjúkrunarrými á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins var á bilinu 93-190 dagar. Lengstur var biðtíminn á Norðurlandi og Vestfjörðum. Fjölgað hefur um 20 prósent á milli ára á biðlistum eftir hjúkrunarrými fyrir aldraða. Þetta kemur fram í úttekt landlæknis um bið eftir hjúkrunarrýmum sem kynnt var í gær. 

Á vef velferðarráðuneytisins er sagt frá fjölgun hjúkrunarrýma. Í Hafnarfirði er verið að ganga frá hjúkrunaríbúðum fyrir 60 íbúa og verður það opnað í byrjun næsta árs. Hjúkrunaríbúðirnar munu leysa af hólmi úrelt rými á Sólvangi, þar sem ákveðið hefur verið að ráðast í gagngerar endurbætur. Með endurbótunum er gert ráð fyrir að hjúkrunarrýmum í Hafnarfirði fjölgi um 33. 

Á Seltjarnarnesi verða opnaðar hjúkrunaríbúðir fyrir 40 íbúa. Þetta er fyrsta hjúkrunarheimilið á Seltjarnarnesi. Ráðgert er að það verði opnað um áramót. 

Við Sléttuveg í Reykjavík er ráðgert að opna hjúkrunarheimili með hjúkrunaríbúðum fyrir 99 íbúa í nóvember á næsta ári. Þá er verið að byggja hjúkrunarheimili fyrir 60 manns í Árborg.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi