Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

200 drengir fæddust í 132 þorpum, engin stúlka

24.07.2019 - 05:47
epa06947574 Indian school children hold a Indian tri-colour flag ahead of India's Independence Day preparations in Bangalore, India, 13 August 2017. India celebrates 71 years of independence from British rule on 15 August 2018.  EPA-EFE/JAGADEESH NV
 Mynd: epa
Indversk yfirvöld hafa fyrirskipað rannsókn vegna gagna sem sýna að á þriggja mánaða tímabili fæddist ekki eitt stúlkubarn í 132 þorpum í Uttarakhand-ríki. Rannsóknin beinist að því, hvort stúlkufóstrum hafi markvisst verið eytt á þessum slóðum.

Al Jazeera greinir frá. Í opinberum gögnum sem birt voru í síðustu viku kemur fram að á öðrum ársfjórðungi þessa árs fæddust 947 börn í 500 þorpum í Uttarakashi-héraði í Uttarakhand. Þar af fæddust 200 börn í 132 þessara þorpa - allt drengir. Í héraðinu öllu fæddust hins vegar 479 stúlkur og 468 drengir á þessu sama þriggja mánaða tímabili.

Getur ekki verið tilviljun

Héraðsstjórn Uttarakashi hefur skilgreint þorpin 132 sem „rautt svæði" og sent 25 manna rannsóknarhóp á vettvang sem ætlað er að komast til botns í málinu. „Fæðingar voru óvenju margar í 82 af þessum 132 héruðum og við munum rannsaka þau fyrst,“ sagði héraðsstjóri Uttarakashi, Ashish Chauhan, í samtali við fréttastofu Al Jazeera. Segir hann of snemmt að fullyrða nokkuð um að stúlkufóstrum hafi verið eytt vísvitandi og telur þetta „alls ekki uggvekjandi,“ heldur geti verið um hreina tilviljun að ræða. Því hafna kvenréttindakonur og samtök sem berjast gegn markvissum eyðingum stúlkufóstra.

„Það er algjörlega dæmalaust að engin stúlka skuli fæðast í svona mörgum þorpum á þremur mánuðum,“ segir baráttu- og vísindakonan Nivedita Menon. „Það hljóta að hafa farið fram einhvers konar ólöglegar kyngreiningar á fóstrum, sem síðan leiddu til fóstureyðinga.“

Prabhat Kumar, yfirmaður barnaverndar hjá Indlandsdeild Barnaheilla, tekur í sama streng og segir kynbundna mismunun og markvissa eyðingu stúlkufóstra landlægt vandamál á Indlandi. „Það getur ekki verið tilviljun að ekki eitt einasta stúlkubarn skuli fæðast í 132 þorpum. Þetta virðist vera enn eitt dæmið um mismunun og vanrækslu gagnvart stúlkubörnum,“ segir hann.  í frétt Al Jazeera.

943 konur á móti 1.000 körlum

Fóstureyðingar á grundvelli kyns hafa verið bannaðar á Indlandi síðan 1994. Rannsóknir sýna að þær fara engu að síður fram í stórum stíl, enn þann dag í dag. Samkvæmt síðasta manntali sem gert var á Indlandi bjuggu þar einungis 943 konur á móti hverjum 1.000 körlum árið 2011. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá 2014 segir að fækkun stúlkubarna á Indlandi megi óhikað jafna við neyðarástand og að rekja megi kynbundið ofbeldi á konum til þessa ástands að einhverju leyti. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV