Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

200 aðgerðir með aðstoð prentaðra líffæra

01.03.2016 - 21:00
Í vísindaskáldsögum er hægt að framleiða líffæri eins og varahluti. Raunveruleikinn er ekki alveg svo krassandi, en Landspítalinn er svo heppinn að fyrir mörgum árum fluttist ítalskur verkfræðingur hingað til lands fyrir ástina og hann hefur skipað sér í fremstu röð í þrívíddarprentun líffæra, sem nýtist á ýmsa vegu við skurðaðgerðir.

Paolo Gargiulo starfar bæði á Landspítala og við Háskólann í Reykjavík. Tæknin til að prenta líffæri í þrívídd hefur verið í þróun lengi. Tilgangurinn er að gefa skurðlæknum tækifæri til að undirbúa sig betur fyrir aðgerðir, mæla skurði, skipuleggja sauma, sjá hvernig er best að nálgast æxli og hvernig sé best að koma verkfærum að.  Hún hefur nú verið notuð til undirbúnings meira en 200 aðgerða á Landspítala. 

„Eftir því sem ég best veit hefur enginn spítali notað þessa tækni við jafn margar aðgerðir.“

Það kemur eitthvað í viðbót

Bjarni Torfason, yfirlæknir hjarta- og brjóstholsskurðlækninga er einn þeirra sem nýtt hefur sér tæknina undanfarin ár.

„Með því að nota tölvuútprentunina, þrívíddarprentunina sem er gerð í skalanum einn á móti einum, þá get ég þreifað á gallanum með fingrunum og mælt með mikilli nákvæmni hvernig hlutirnir eru. Ef ég þarf til dæmis að taka burtu vef, þá get ég gert það alveg nákvæmlega, taka nógu mikið, ekki of mikið. Þótt það séu góðar myndrannsóknir, þá er það bara mynd á skjá. Það kemur eitthvað í viðbót þegar maður þreifar á hlutnum.“

Bjarni gerði til að mynda mjög flókna aðgerð á 67 ára manni fyrir tæpum tveimur árum. Sá var búinn að liggja lengi á gjörgæslu, með stórt gat milli hjartahólfa og drep í hjartavefnum eftir alvarlegt hjartaáfall. En með því að fá nákvæmt afrit af hjartanu í hendur var hægt að skipuleggja aðgerðina – sníða bætur og sjá fyrir hvernig væri hægt að koma verkfærum að.

„Í hans tilfelli til dæmis þá var hægt að komast hjá því að fara í gegnum drepið sem var á hjartanu sjálfu, út á yfirborð hjartans. Ég er nokkuð viss um að hann hefði ekki lifað það af.“

Eintaklingsframtakið dugar ekki

Þótt það sé langt í að hægt verði að prenta út alvöru líffæri, þá er verið að undirbúa aðgerð á spítalanum þar sem verður notað andlitsbein úr málmi, ekki einungis sem líkan til að auðvelda skurðaðgerð, heldur verður það grætt i sjúkling í stað beins sem þurfti að fjarlægja. Í öðru tilviki var líkan af hauskúpu notað til að búa til nýtt andlitsbein úr beinvef sem tekinn var úr legg viðkomandi sjúklings. 

Ísland er lítið land og einstaklingsframtakið getur skipt miklu. Það er þó verra ef mikilvæg þekking eins og þessi veltur aðeins á einum manni, en þannig er staðan núna. Það er eins gott að Paolo Gargiulo líki lífið vel á Íslandi.

„Þetta er rétt. Landspítalinn hefur sýnt mér mikið traust og gefið mér tækifæri til að þróa þessa tækni hér. Nú er rétti tíminn til að sýna hugrekki og fjárfesta í mannauði. Að búa til strúktúr sem ekki snýst um einstaklingsframtak, heldur að byggja upp þekkingu sem verður áfram á spítalanum og getur haldið áfram að þróast.“

„Ef þú ferð, þá er ekkert?“

„Nei.“

„Hverfur allt?“

„Já, eins og er. Síðan yrði einhver að byrja upp á nýtt.“

thoraa's picture
Þóra Arnórsdóttir
Fréttastofa RÚV