Segja má að árið 1918 og sér í lagi haustið hafi verið eins konar eldskírn þjóðarinnar áður en hún öðlaðist fullveldi. Allir þessir atburðir voru eins og skuggi yfir því þegar Íslendingar tóku þetta stóra skref í sjálfstæðisbaráttu sinni. Það er því ómögulegt að ímynda sér að hér á landi hafi verið einróma fögnuður í kjölfar fullveldisins. Það sætir því ekki furðu að einhverjum hafi lítið fundist vanta upp á að komið væri fast að heimsendi.
Heimsendir hefst í Kötlu
Heimsendir hefur verið mönnum hugleikinn um aldir og hugmyndir um hann hafa tekið á sig ýmsar myndir. Ítrekað hefur verið reynt að spá fyrir um endalok heimsins og slíkar frásagnir hafa gjarnan orðið leiðarstef margra trúarbragða. Og þótt það felist í nafninu sjálfu þýðir orðið heimsendir ekki alltaf endalok efnisheimsins heldur í raun endalok okkar sögu, endalok mannsins og hrun okkar heimsmyndar.
Í íslenskri menningu eru Ragnarök norrænnar goðafræði eflaust þekktasta frásögnin af endalokunum. Og það sem tengir saman heimsendi og Ísland gæti hugsanlega verið eldgos. Nánar tiltekið í Kötlu í Mýrdalsjökli.
Nýlegar rannsóknir benda til að ekki sé útilokað að Ragnarök, eins og þeim er lýst í Völuspá, séu hugsanlega lýsing á eldgosinu í Eldgjá. Eldgjárgosið, sem er talið eitt stærsta eldgosið á sögulegum tíma, varð á miðri 10. öld. Það varð utan Mýrdalsjökuls á 75 kílómetra langri gossprungu frá Kötluöskjunni langleiðina norðaustur að Vatnajökli. Ekki er vitað hve lengi Eldgjárgosið stóð yfir en það hefur líklegast ekki varað skemur en Skaftáreldar og til eru vísbendingar um að það hafi staðið yfir í þrjú til átta ár.
Snemma árs 2018 birtust niðurstöður rannsóknar á Eldgjárgosinu í tímaritinu Climate Change sem gefið er út í Cambridge háskóla á Englandi. Þar kemur fram að lýsing á Eldgjárgosinu sé mögulega innblástur að erindum í Völuspá:
Sól tér sortna,
sígr fold í mar,
hverfa af himni
heiðar stjörnur;
geisar eimi
við aldrnara,
leikr hár hiti
við himin sjálfan.
Jökulklædda ófreskjan
Það er erfitt að setja sig í spor þeirra sem upplifðu atburðina haustið 1918. Atburði sem margir Íslendingar hreinlega lýstu sem því sem næst kæmist heimsendi. Í bókinni 1918 eftir Gísla Jónsson er dögunum í kringum þjóðaratkvæðagreiðsluna um sambandslögin lýst svo:
„Það er því skiljanlegt, að kjörsóknin yrði ekki mikil í Vestur-Skaftafellssýslu, meðan ósköpin stóðu yfir. Þótti og mörgum heldur en ekki verða tíðindasamt í veröldinni þennan nóvembermánuð. Vopnahlé og furstafall í Evrópu, stórgos í Kötlu, drepsótt í Reykjavík og Ísland að verða fullvalda. Varð gömlum manni að orði, að ekki vantaði nú annað en halastjörnu, til þess að komið væri fast að heimsendi.“
Það var 12. október, skömmu eftir hádegi, sem snarpir jarðskjálftar urðu í Vík í Mýrdal. Katla var farin að gjósa. Hún er ein virkasta og hættulegasta eldstöð landsins og það eru engar ýkjur. Á sögulegum tíma hefur Katla gosið 20 sinnum ef frá er talið Eldgjárgosið á 10. öld.
Katla er ekki aðeins ógnvænlegt eldfjall. Það er eitthvað við þetta alræmda eldfjall, sem lúrir undir Mýrdalsjökli, sem hefur skapað uggvænlega goðsögn. Til er þekkt þjóðsaga af brók matseljunnar Kötlu sem Jón Steingrímsson, eldmessuklerkur, skráði sögu afá ofanverðri 18. öld. Í þeirri sögu er uppruni Kötlu rakinn og skýrt frá ástæðum kraumandi reiði hennar.
Af ógnarsögum af Kötlu í samtímanum má nefna viðtal við Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands, í breska ríkisútvarpinu BBC í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli árið 2010. Þar varar hann við Kötlu og lýsir gosinu í Eyjafjallajökli eins og smjörþefinn af því sem koma skal úr ófreskjunni undir Mýrdalsjökli.
„Heilar heiðar snævi þaktar“
Kötlugosið sjálft og áhrif þess eru vel skrásett og árið 1919 komu út annálar þar sem nákvæmum lýsingum fólks, í nærsveitum jökulsins og víðar, á eldsumbrotunum. Úr þeim heimildum má lesa að ógnin hafi stafað af jökulhlaupi úr Kötlu ekki síður en gosinu sjálfu og gjóskunni sem því fylgdi. Gjarnan var talað um Kötluhlaup fremur en Kötlugos.
Kjartan L. Markússon í Hjörleifsshöfða lýsir hlaupinu svo árið 1919. Staðan klukkan hálffjögur 12. október 1918 var þessi:
“Ógurlegt vatnsflóð hafði þá brotist fram á milli Hafurseyjar og Selfjalls og ruddist áfram með ótrúlegum hraða yfir alla hina gömlu farvegi Sandvatnsins. Var breidd þess frá Hjörleifshöfða að vestan alla leið austur að Blautuhvísl. Sást enginn þurr blettur standa upp úr á öllu þessu svæði ... Flóðið brauzt þegar vestur fyrir Hjörleifshöfða, svo hann var umkringdur eftir lítinn tíma. Einnig hafði flóðið hlaupið fram í farveg Múlakvíslar, og var jafnsnemma að það náði þar til sjávar og hér austurfrá ... Kl. 5 eftir hádegi óx flóðið geysimikið. Kom þá fram á milli Hafurseyjar og Selfjalls svo mikið íshrúgald að líkast var sem þar brunuðu fram heilar heiðar snævi þaktar.”
Í dagblaðinu Vísi frá 13. október, daginn eftir að Katla byrjaði að gjósa, var talað um aðgerðaáætlun ef ske kynni að hlaupið myndi teygja sig í vesturátt enda væri tíminn naumur ef það gerðist:
"Ekki ætluðu Víkur-búar að flýja þorpið í gærkveldi. En þó voru þeir við því búnir, að þeir yrðu að fara í nótt. Er það undir því komið, hvort jökulhlaupið breiðist út yfir sandinn vestur fyrir hæðadragið. Þá leitar fólkið upp í Mýrdalinn, og er það skamt að fara, en ekki kemur þá til mála, að neinu öðru verði bjargað en mönnum og skepnum. Í Mýrdalnum er öllu óhætt."
Í Reykjavík var auðvitað óhætt þrátt fyrir að gjóskufall mældist nokkrum sinnum og stundum var eins og rökkvaði um hábjartan dag. Margir Reykvíkingar flykktust upp á Skólavörðuholt eða aðrar hæðir bæjarins þegar skyggnið var best til þess að reyna sjá betur gosmökkinn sem sást stíga úr Mýrdalsjökli í austri og bar við himinn.
Stærsta farsótt í nútímasögu
Aðeins viku eftir að Katla gaus, 19. október, barst spánska veikin til Reykjavíkur með gufuskipinu Botníu. Um miðjan nóvember lágu þúsundir Reykvíkinga lágu veikir um miðjan nóvember. Samfélagið fór úr skorðum, dagblöð hættu skyndilega að koma út og varla sást nokkur sála á götum úti. Búðir lokaðar og nauðsynjar skorti. Sorgin sem grúfði yfir höfuðstaðnum var blönduð hræðslu og reiði.
Í Reykjavík störfuðu 10 læknar sem sinntu þúsundum sjúklinga, undir miklu álagi, bæði andlegu og líkamlegu. Margir reyndu ýmsar tilraunakenndar meðferðir við veikinni en með litlum árangri.
Einn þeirra var Þórður Thoroddsen sem skrifaði grundvallarúttekt á inflúensum og spænsku veikinni sjálfri í Læknablaðið 1919.