Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

19 hafa verið drepin í mótmælum í Bólivíu

17.11.2019 - 00:48
epa08000706 A demonstrator clasps the hands of a member of Bolivian army during a protest against the provisional government in La Paz, Bolivia, 15 November 2019. Bolivia is plunged into a crisis after the elections of October 20, with at first opposition protests against Evo Morales over allegations of fraud to achieve his fourth consecutive term, and now after his resignation Morales supporters protesting against the interim government of Jeanine Áñez.  EPA-EFE/Rodrigo Sura
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Nítján manns hafa verið drepin í mótmælum síðustu vikna í Bólivíu, langflest af lögreglu og öryggissveitum yfirvalda. Á föstudag féllu átta mótmælendur, stuðningsmenn Evos Morales, fyrrverandi Bólivíuforseta, í bænum Sacaba, skammt frá borginni Cochabamba. Sjónarvottar bera að lögregla hafi skotið á mótmælendur. Læknir í Sacaba staðfesti við AP-fréttastofuna að flestir hinna látnu hefðu fallið fyrir byssukúlu.

Embætti umboðsmanns almennings segir staðfestar upplýsingar liggja fyrir um 19 dauðsföll í tengslum við mótmælin í landinu, sem hófust skömmu eftir að yfirkjörstjórn lýsi Evo Morales óvænt sigurvegara og rétt kjörinn forseta í nýafstöðnum forsetakosningum, þrátt fyrir að allt hafi lengst af bent til þess að kjósa þyrfti aftur á milli tveggja efstu manna.

Í fyrstu voru það einkum andstæðingar Morales sem drepnir voru í mótmælunum, en nú, eftir að Morales sagði af sér og fór úr landi og bráðabirgðaríkisstjórn hefur tekið við völdum, eru það helst stuðningsmenn hans sem falla í valinn. Sú var raunin í Sacaba þegar þúsundir kókabænda voru stöðvaðir á leið sinni til Cochabamba, þar sem þeir ætluðu að lýsa stuðningi sínum við útlægan forsetann á fjöldafundi.

Fréttaritari AFP greindi frá því á föstudag að hann hefði séð lík fimm fallinna mótmælenda. Innanríkisráðuneytið staðfesti þetta nokkru síðar og á laugardag voru þrjú dauðsföll til viðbótar staðfest.

Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna og fyrrverandi forseti Chile, varar við því að ofbeldishrinan í Bólivíu geti hæglega farið endanlega úr böndunum, haldi yfirvöld áfram að reyna að kúga fólk til hlýðni með vopnavaldi. Slík framganga sé „líkleg til að stefna öllum möguleikum til samræðna og samninga í voða.“