Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

19 féllu í loftárás Tyrkja í Idlib-héraði

01.03.2020 - 22:56
epa08262909 Refugees and migrants walk in a dirty road heading to the Turkish-Greek border and trying to enter Europe, in Edirne, Turkey, 01 March 2020. The Turkish government announced its decision to no longer stop refugees from reaching Europe, after 33 Turkish soldiers were killed in Idlib, Syria on 27 February.  EPA-EFE/DIMITRIS TOSIDIS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nítján hermenn sýrlenska stjórnarhersins féllu í drónaárásum Tyrkja í Idlib-héraði í dag. AFP fréttastofan hefur eftir sýrlensku mannréttindavaktinni að skotið hafi verið á bílalest hersins og herstöð í héraðinu. Fyrr í dag höfðu Tyrkir skotið niður tvær sýrlenskar herflugvélar. 

Spennan fer sívaxandi á milli Tyrkja og Sýrlendinga við Idlib-hérað. Héraðið liggur að landamærum ríkjanna. Tyrkir hétu því að hefna árásar Sýrlandshers í síðustu viku þar sem 34 tyrkneskir hermenn féllu í loftárás. Tyrkir eru með eftirlitsstöðvar í Idlib-héraði. Þar styðja þeir aðgerðir uppreisnarhreyfinga gegn stjórnarher Sýrlands. Idlib er síðasta stóra vígi uppreisnarmanna í Sýrlandi, og hefur stjórnin heitið því að ná aftur völdum í héraðinu.

Hundruð þúsunda flýja til Tyrklands

Íbúar í Idlib-héraði hafa flúið átökin og leita norður til Tyrklands. Þar eru fyrir 3,4 milljónir sýrlenskra flóttamanna og segjast Tyrkir ekki geta tekið á móti fleirum. Þeir hafa því hótað Evrópusambandinu að opna landamæri sín að Grikklandi ef þeir fá ekki aðstoð. Grikkir sögðust í dag hafa komið í veg fyrir að um 10 þúsund flóttamenn kæmust yfir landamærin frá Tyrklandi.