Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

16 handteknir í Belgíu

23.11.2015 - 00:28
epa05037812 Belgian security forces during a police operation in Molenbeek, Belgium, 22 November 2015. The city of Brussels will remain at Belgium's highest level of terrorism alert following a decision made by the Belgian national security council.
 Mynd: EPA
16 voru handteknir í viðamiklum lögregluaðgerðum í belgísku borgunum Brussel, Charleroi og Liege í kvöld. Saleh Abdeslam, sem fullvíst er talið að hafi átt þátt í hryðjuverkunum í París um síðustu helgi, er ekki á meðal hinna handteknu. Fullyrt er í nokkrum belgískum vefmiðlum að hann hafi komist undan á flótta.

Aðgerðir lögreglu hófust um klukkan sjö í kvöld að staðartíma og stóðu fram á tólfta tímann. Hermenn tóku einnig þátt í aðgerðunum, sem þó lutu stjórn lögregluyfirvalda. Gestum á tveimur stórum hótelum í miðborg Brussel var eindregið ráðlagt að halda halda sig á herbergjum sínum en engum var þó varnað útgöngu. Fjölda gatna í nágrenni Grote Markt, miðborgartorgsins fjölfarna, var lokað fyrir allri bílaumferð og veitingamenn beðnir að loka veitingastöðum sínum.

Fimmtán voru handteknir í Brussel, einn í Charleroi. Engin vopn eða sprengiefni munu hafa fundist í 22 húsleitum sem gerðar voru; 19 í brussel og 3 Charleroi. Sex hinna handteknu voru gripnir í Zuidstraat, eða Suðurgötu, í næsta nágrenni Grote Markt, en einn þeirra mun skráður þar til heimilis. Tveimur skotum var hleypt af þegar bíl var stefnt að hópi lögreglumanna. Ökumaður særðist og lagði á flótta en var gripinn skömmu síðar. Belgíska blaðið De Standaard greinir frá þessu.

Hæsta viðbúnaðarstig er enn í gildi í Brussel og nágrenni, vegna beinnar og yfirvofandi hættu á hryðjuverkum. Háskólar, skólar og leikskólar verða áfram lokaðir, og neðanjarðarlestarstöðvar einnig. Verslanir og útimarkaðir verða einnig meira og minna lokuð í höfuðborginni framan af mánudegi. Öryggisráð landsins mun endurmeta stöðuna síðdegis.