157 lög berjast um að taka við af Hatara

Mynd með færslu
 Mynd:

157 lög berjast um að taka við af Hatara

20.10.2019 - 12:22

Höfundar

25 fleiri lög voru send inn í íslensku Söngakeppnina en í fyrra. Alls voru 157 lög send til keppni í ár. Sjö manna valnefnd velur nú á milli þeirra áður en tíu lög verða kynnt fyrir þjóðinni. Björg Magnúsdóttir, sem situr í framkvæmdastjórn keppninnar segir meiri áhuga vera á keppninni nú en áður.

„Þetta er um það bil tuttugu prósenta aukning á innsendum lögum miðað við í fyrra. Það er auðvelt að leiða líkum að því að þátttaka Hatara og gott gengi hafi ýtt við lagahöfundum í landinu,“ segir Björg.

Sjö manna valnefnd á nú erfitt starf fyrir höndum að velja 10 lög af 157 sem bárust. Lög þeirra og höfundar verða kynntir opinberlega í janúar. Allir gátu sent inn lög. Að auki bað RÚV vinsæla lagahöfunda um að semja hluta keppnishlaganna.  Í valnefndinni eru fulltrúar frá RÚV, Félagi íslenskra hljómlistamanna og Félagi tónskálda- og textahöfunda. 

„Allir senda lög inn undir dulnefni. Nú tekur valnefnd til starfa og það er bara fullt af mikkum, músum og andrésínum - þannig að þau vita ekki hverjir eru á bakvið hvaða lög,“ segir Björg.

Undankeppnir Söngvakeppninnar fara fram þann 8. og 15. febrúar í Háskólabíói og úrslitin ráðast 29. febrúar  í Laugardalshöll. Sigurlagið verður fulltrúi Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, í Rotterdam í Hollandi í maí á næsta ári.

Hatari endaði í 10. sæti í Tel Aviv í vor. Eins og frægt er sektaði Samband evrópskra sjónvarpsstöðva RÚV fyrir framgöngu Hatara í græna herberginu, þegar hljómsveitin dró upp borða með fánalitum Palestínu. Sektin nam fimm þúsund evrum eða nærri 700 þúsund krónum. „En við reiknum ekki með að þetta hafi áhrif á keppnina og hversu hún vegleg hún verður. Þannig að nei við reiknum ekki með því að þetta hafi áhrif á næstu keppni,“ segir Björg.

Tengdar fréttir

Söngvakeppnin

RÚV sektað fyrir Palestínuborða Hatara

Menningarefni

Eurovision verður í Rotterdam 2020

Tónlist

Mótmæli Hatara klippt út á DVD-útgáfunni

Tónlist

Íslendingar horfa þjóða mest á Eurovision