15 opinberir aðilar án persónuverndarfulltrúa

31.08.2019 - 13:29
Mynd með færslu
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. Mynd: RÚV - Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Ríkislögreglustjóri, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu og Ríkissaksóknari eru á meðal fimmtán opinberra aðila sem hafa ekki skipað persónuverndarfulltrúa þrátt fyrir tilmæli frá Persónuvernd. Forstjóri Persónuverndar segir það vekja furðu að þessar stofnanir hafi ekki sinnt þessari skyldu.

Með nýju persónuverndarlögunum frá 2018 var stofnunum, ráðuneytum, sveitarfélögum og ákveðnum fyrirtækjum gert skylt að hafa persónuverndarfulltrúa. Hann hefur það hlutverk að fylgjast með því að farið sé að persónuverndarlögum. Frestur til að tilnefna persónuverndarfulltrúa var til 29. ágúst. 

Samkvæmt Persónuvernd hafa rúmlega 93% þeirra opinberu aðila, sem úttekt Persónuverndar náði til, sinnt þessari lögboðnu skyldu sinni. Fimmtán hafa ekki gert það. Það eru Árneshreppur, Ferðamálastofa, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Listasafn Einars Jónssonar, Menntaskólinn við Sund, Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn, Tilraunastöð HÍ í meinafræðum að Keldum, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum og - sem sérstaka athygli vekur - nokkrar af helstu stofnunum íslensks réttarvörslukerfis - Fangelsismálastofnun Ríkisins, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórinn á Vestfjörðum, Ríkislögreglustjóri, Ríkissaksóknari, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi. 

Helga Þórisdóttir, forstjóri persónuverndar segir að staða persónuverndarfulltrúa sé mikilvægur þáttur til að tryggja að meðferð persónuupplýsinga sé örugg. Helga segir það vekja furðu að þessar stofnanir hafi ekki enn tilnefnt fulltrúa. „Nú er þetta mál sem er í gangi hjá Persónuvernd og þessir aðilar sem eru ekki búnir að sinna þessum skyldum eru á leiðinni að fá enn eitt bréfið frá okkur þar sem við hvetjum þá til að ljúka þessu. Sé það ekki gert innan mánaðar, þá er búið að tilgreina að það komi meðal annars til skoðunar að leggja sekt.“

 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi