Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

1,5 milljónir ferðamanna árið 2023

10.09.2013 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Erlendir ferðamenn verða ein og hálf milljón árið 2023. 5.000 ný störf verða til og skatttekjur af ferðaþjónustu verða 52 milljarðar króna á ári eftir áratug, haldi Íslendingar rétt á spöðunum í uppbyggingu atvinnugreinarinnar.

Þetta er niðurstaða ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group á stöðu og möguleikum íslenskrar ferðaþjónustu, en rannsóknir og tillögur fyrirtækisins voru kynntar á ráðstefnu í Hörpu í Reykjavík í morgun. Mögulegt sé að fjölga ferðamönnum um helming á næstu tíu árum úr 700.000  í 1,5 milljónir.

Margt þurfi þó að laga til að hægt sé að taka á móti þessum fjölda. Vernda þurfi og byggja upp ákveðna staði sem trekkja nú þegar að sér ferðamenn, byggja upp nýja viðkomustaði, einkum á menningarsviðinu. Bæta innviði og samgöngumannvirki og endurskoða kynningarstarf til að ná betur til ákveðinna markhópa. Lagt er til að fjár til uppbyggingar verði aflað með sölu náttúrupassa til ferðamanna og að öll stjórnsýsla verði einfölduð frá því sem nú er.

Pedro Esquivias, einn ráðfgjafa Boston Consulting Group, segir að Íslendingar séu tilbúnir í verkefnið. Þeir megi þó ekki láta græðgi og skammtímasjónarmið ráða ferðinni, ekki stefna að 2-2,5 milljónum ferðamanna á einu bretti. Landar hans á Spáni hafi fallið í þá gryfju og allir vita hverjar afleiðingarnar urðu.