Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

1,5 milljón flóttamenn frá Sýrlandi

20.06.2013 - 17:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Alþjóðadagur flóttamanna er í dag. Af því tilefni sendi Rauði krossinn á Íslandi þrettán milljónir króna til hjálparstarfs Alþjóða Rauða krossins við flóttafólk frá Sýrlandi. Þar af er tíu milljóna króna framlag frá utanríkisráðuneytinu.

Alls hafa um 1,5 milljón manna flúið frá Sýrlandi og leitað hælis í nágrannalöndunum. Öfugt við það sem margir halda þá leita fæstir flóttamenn skjóls í Evrópu. Langflestir flóttamenn leita skjóls í nágrannaríkjum sínum sem oft eru stríðshrjáð og fátæk lönd. Þannig eru það Íran, Pakistan og Sýrland sem hýsa langflesta flóttamenn í heiminum. 

Í yfirlýsingu Rauða krossins er ítrekað að menn eigi rétt á því að sækja um og njóta alþjóðlegrar verndar gegn ofsóknum og alvarlegum mannréttindabrotum og að flóttafólk hefur rétt á að sækja um hæli þegar því er ekki vært í heimalandi sínu. Öll ríki heims verði að virða þennan rétt, ekki síst friðsæl og auðug ríki, segir í yfirlýsingunni.