Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

15% hinsegin fólks segjast fá færri tækifæri

12.08.2019 - 13:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
15% hinsegin fólks telja sig hafa færri tækifæri á vinnumarkaði en aðrir, samkvæmt nýrri könnun. Gunnlaugur Bragi Björnsson formaður Hinsegin daga hefur áhyggjur af því. Niðurstöður könnunarinnar komi ekki á óvart.

Um 30% hinsegin fólks hafa fengið nærgöngular spurningar frá samstarfsfólki. „Og þarna erum við að sjá furðuhátt hlutfall sem fær einhvers konar óviðeigandi athugasemdir eða mjög nærgöngular spurningar varðandi sitt einkalíf eða kynlíf eða annað,“ segir Gunnlaugur Bragi. „Og svo er það þessi áhugaverði vinkill, það er ýmist verið að hrósa hinsegin fólki fyrir að vera frekar venjulegt eða hrósa því fyrir að vera ekki nógu hinsegin, „ertu viss um að þú sért hommi? Þú hefur ekki einu sinni áhuga á Eurovision“.“

Um 15% hinsegin fólks telja sig hafa færri tækifæri á vinnumarkaði en aðrir, samkvæmt niðurstöðum könnunar sem 400 manns svöruðu, „sem er auðvitað áhyggjuefni,“ segir Gunnlaugur Bragi. 

Könnuninni var dreift á samfélagsmiðlum og send fyrirtækjum og viðskiptavinum Kauphallarinnar. Meðal niðurstaðna er að um 17% fela eða fara leynt með það að vera hinsegin. Um 6% hafa verið beðin um að fela hinseginleika sinn á vinnustað og svipað hlutfall upplifir útilokun í félagslífi á vinnustað.

Þrátt fyrir að könnunin sé ekki vísindaleg segir Gunnlaugur Bragi niðurstöðurnar gefa góðar upplýsingar um stöðuna. Hann vonast til þess að hún hvetji til frekari rannsókna. „Það er margt sem að kemur fram í þessari óformlegu könnun okkar sem að hljómar sambærilega sem við höfum séð í umræðu og rannsóknum annars staðar. Auðvitað vonum við að við myndum skera okkur úr, staðan væri kannski aðeins betri,“ segir Gunnlaugur Bragi jafnframt.

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV